Innlent

Miklar sviptingar munu fylgja kröppum lægðum eftir helgi

Birgir Olgeirsson skrifar
Úrkomuspá Veðurstofu Íslands fyrir klukkan 15 á mánudag.
Úrkomuspá Veðurstofu Íslands fyrir klukkan 15 á mánudag. Vísir/vedur.is
Eftir helgina má búast við nokkrum kröppum lægðum úr suðri sem ganga hratt norður á bóginn fram hjá landinu með miklum sviptingum í veðri. Frá þessu er greint í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þessar sviptingar birtast í langtímaspánni en á mánudag gengur í austan og norðaustan 13 - 20 metrar á sekúndu með rigningu en slyddu norðan til. Á þriðjudag er útlit fyrir suðaustan átt með rigningu en á miðvikudag verður komin suðvestan átt, 8 til 15 metrar á sekúndum, með éljum og kólnandi veðri. Á fimmtudag hlýnar svo aftur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á morgun:

Lægir og dregur úr úrkomu á morgun. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast syðst, en svalast í innsveitum.

Á sunnudag:

Suðaustan 8-15 m/s með rigningu, en snýst í sunnan og suðvestan 5-10 með skúrum eftir hádegi. Hægari og úrkomulítið NA-til. Hiti 2 til 8 stig.

Á mánudag:

Gengur í austan og norðaustan 13-20 með rigningu, en slyddu norðan til. Snýst í suðvestan 20-25 við SA-ströndina seinnipartinn, en V-læg átt 10-18 annars staðar. Hiti 1 til 6 stig.

Á þriðjudag:

Suðaustan 10-18 með rigningu, jafnvel talsverðri SA-lands, en úrkomulítið NA-til. Hiti 2 til 8 stig.

Á miðvikudag:

Suðvestan 8-15 með éljum og kólnandi veðri.

Á fimmtudag:

Stíf austanátt með rigningu S-til, en þurrt N-til. Hlýnandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×