Innlent

Gekk út úr viðtali þegar hann var spurður um fjarvistir á Alþingi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður og fyrrum forsætisráðherra, gekk út úr viðtali við RÚV þegar fréttamaður spurði hann um fjarvistir hans á þingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður og fyrrum forsætisráðherra, gekk út úr viðtali við RÚV þegar fréttamaður spurði hann um fjarvistir hans á þingi. Vísir/Auðunn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, gekk út úr viðtali við RÚV þegar fréttamaður spurði hann um fjarvistir hans á þingi. Sigmundur Davíð veitti RÚV viðtal í veislu á Akureyri í gær sem haldinn var í tilefni af 100 ára afmæli flokksins.  Sigmundur Davíð sagði að fréttamaðurinn hefði beðið hann um viðtal á ákveðnum forsendum og það hefði ekki gengið eftir.

Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður RÚV, spurði Sigmund Davíð hvers vegna hann, oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi, hefði ekki mætt í vinnuna síðan Alþingi kom saman sjötta desember síðastliðinn.

„Sko, þessi viðtöl við þig, eiga þau öll að vera svona, á þessum nótum? Á 100 ára afmæli flokksins líka. Síðast baðstu mig um að veita þér viðtal á ákveðnum forsendum og það gekk ekki alveg eftir. Svo mætirðu hér í 100 ára afmæli og spyrð spurninga eins og þessara, á þetta bara að vera svona. Ekkert mætt í vinnuna? Hverskonar nálgun er þetta á viðtal?“ svaraði Sigmundur.

„Þú hefur ekki mætt á Alþingi síðan það kom saman, það er eðlilegt að spyrja hversvegna ekki,“ sagði Sunna þá.

„Þá geturðu bara beðið mig um viðtal um það. Þú kemur ekki hingað og biður mig um viðtal um afmæli flokksins og kemur með útúrsnúninga eins og þetta.“

Reiði RÚV

Í frétt á vef RÚV segir að fréttamaðurinn hafi aldrei fullyrt við Sigmund Davíð að viðtalið yrði einungis um aldarafmæli Framsóknarflokksins.

Sigmundur sagðist hafa fylgst með þingfundum eins og aðrir þingmenn og gangi mála þar. Sunna sagði þá að Sigmundur hafi ekki fylgst eins vel með og aðrir þingmenn þar sem hann hafi ekki verið viðstaddur og brást Sigmundur þá ókvæða við.

„Voðaleg reiði er þetta í Ríkisútvarpinu, og sérstaklega þér í minn garð. Ég hef fylgst með umræðum í þinginu og störfunum þar eins og aðrir þingmenn. Segjum þetta gott,“ sagði hann áður en hann yfirgaf herbergið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×