Erlent

Netanyahu fordæmir ræðu John Kerry

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Vísir(/AFP
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur fordæmt ræðu John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fjallaði um frið á milli Ísrael og Palestínu. Netanyahu segir ræðu Kerry hafa einkennst af fordómum gegn Ísrael og að hann hafi að mestu hunsað ofbeldi Palestínumanna.

„Það sem hann gerði var að eyða mestum tíma í að kenna Ísrael um skort á friði,“ sagði Netanyahu eftir ræðu Kerry. „Ísraelar þurfa ekki á fyrirlestrum frá erlendum leiðtogum um mikilvægi friðar að halda.“

Hann segir Kerry hafa þess í stað eytt tíma sínum í að skammast yfir landtökubyggðum Ísrael. Hann hafi ekki fjallað um rót ofbeldisins, sem væri „andstaða Palestínu“ gagnvart nokkurs konar ríki gyðinga.

Fjölmargar hafa látið lífið í hnífa- og skotárásum í Ísrael á undanförnum mánuðum.

Kerry sagði að stöðugt fleiri landtökubyggðir Ísraela, á landi sem Palestínumenn líta á sem sitt eigið, draga úr möguleika á friði. Samkvæmt alþjóðalögum eru umræddar byggðir ólöglegar.

Tilbúnir til viðræðna verði fjölgun byggða hætt

Mahmud Abbas, forseti Palestínu, sagði í kvöld að Palestínumenn væru tilbúnir til friðarviðræðna, ef Ísraelsmenn hætti að byggja nýjar landtökubyggðir.


Tengdar fréttir

Netanyahu segir ályktun Öryggisráðsins svívirðilega

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir það svívirðilegt að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi samþykkt ályktun þar sem kallað er eftir því að Ísraelar stöðvi uppbyggingu frekari landnemabyggða á Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalem.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×