Innlent

Færð á vegum: Víða hálka og búist við asahláku

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Björgunarsveitir hafa haft í nægu að snúast yfir jólahátíðina, þá einna helst vegna veðurs og færðar, en engin útköll hafa borist það sem af er þessum degi né í nótt.
Björgunarsveitir hafa haft í nægu að snúast yfir jólahátíðina, þá einna helst vegna veðurs og færðar, en engin útköll hafa borist það sem af er þessum degi né í nótt. Vísir/Vilhelm
Hálka eða hálkublettir er víðast hvar á landinu og búist er við talsverðri rigningu og asahláku. Stormi er spáð í dag og á morgun og er fólk hvatt til að fylgjast með færð á vegum áður en það heldur út í umferðina.

Aðalleiðir á Suðurlandi eru greiðfærar en hálkublettir á flestum útvegum og á Reynisfjalli við Vík. Hálka er á Kjósarskarði og Grafningsvegi, að því er segir á vef Vegagerðarinnar. Þá er víða greiðfært á Vesturlandi en hálka eða hálkublettir á flestum fjallvegum.

Óveður er á Holtavörðuheiði og á norðanverðu Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir en þæfingsfærð og óveður á Steingrímsfjarðarheiði. Flughálka er milli Bjarkarlundar og Klettsháls, í Ísafjarðardjúpi og nágrenni Drangsness. Mjög hvasst er á sunnanverðum fjörðunum.

Hálkublettir eða hálka er á vegum á Norðurlandi og mjög hvasst á Norðvesturlandi. Flughálka er í Köldukinn, Hólaheiði, Hófaskarði og á Sandvíkurheiði.

Á Austurlandi er víða hálka en flughált á Jökuldal og víða á Héraði. Hálka eða hálkublettir eru með suðausturströndinni.

Búist er við stormi um land allt í dag og á morgun og þá er gert ráð fyrir talsverðri rigningu með asahláku sunnan- og vestantil í dag.

Björgunarsveitir hafa haft í nægu að snúast yfir jólahátíðina, þá einna helst vegna veðurs og færðar, en engin útköll hafa borist það sem af er þessum degi né í nótt, að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Hann segir björgunarsveitir þó í viðbragðsstöðu, líkt og alltaf, og hvetur fólk til að fylgjast með veðurspám áður en haldið er af stað í ferðalag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×