Fótbolti

"Hefði skitið á mig ef ég hefði tekið við landsliðinu á þessum tíma“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson gerir upp sögulegt ár íslenska karlalandsliðsins í sérstökum viðtalsþætti Harðar Magnússonar, „Þegar Höddi hitti Heimi“, á öðrum degi jóla. Þátturinn verður sýndur klukkan 20:00 á Stöð 2 Sport HD.

Hörður og Heimir fara um víðan völl í viðtalinu enda af mörgu að taka eftir frábæran árangur landsliðsins á árinu 2016.

Heimir þjálfaði karlalið ÍBV áður en hann gerðist aðstoðarþjálfari Lars Lagerbäck. Eyjamaðurinn viðurkennir í viðtalinu við Hörð að hann hefði líklega runnið á rassinn hefði hann tekið við landsliðinu strax eftir að hafa þjálfað ÍBV.

„Eftir að hafa þjálfað ÍBV hélt ég að ég væri nógu góður til að taka við íslenska landsliðinu. Í algjörum heiðarleika hefði ég skitið á mig ef ég hefði tekið við á þessum tíma,“ sagði Heimir og bætti því við að það væri tvennt ólíkt að þjálfa félagslið og landslið.

„Það þarf allt öðru vísi umgjörð. Þarna var kominn maður [Lars] sem hafði þjálfað landslið í tugi ára. Líklega er Lars einn reyndasti landsliðsþjálfari í heimi.“

Heimir segir að reynsla Lars hafi reynst sér, og íslenska landsliðinu, ómetanleg.

„Ég hefði líklega hlustað á Eið Smára þegar hann sagði svona gerum við þetta hjá Barcelona. Svo hefði Kolbeinn komið til mín og sagt svona gerum við þetta hjá Ajax. Ég hefði sennilega alltaf verið að breyta. Lars bjó í raun til þetta vinnuumhverfi sem er svo gríðarlega mikilvægt þegar þú ert með landslið,“ sagði Heimir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×