Innlent

Fjárframlög til Sýrlands aukin

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Alþingi samþykkti í gærkvöldi að hækka framlög til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi á þessu ári um 50 milljónir króna. Það kemur til viðbótar við þær 23 milljónir króna sem veittar hafa verið aukalega til neyðaraðstoðar í landinu, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þá hefur verið ákveðið að ráðstafa 52 milljónum í byrjun næsta árs til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi.

Framlög Íslands fara að stærstum hluta til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, Barnahjálpar SÞ í Sýrlandi, UNICEF og til Sýrlandssjóðs Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, OCHA, segir í tilkynningunni.

Sameinuðu þjóðirnar áætluðu í vikunni að 39 þúsund borgarar hafi flúið frá Austur-Aleppo, þar sem ástandið er einna verst. Sýrlensk stjórnvöld settu upp nýjar flóttamannabúðir til að veita fólki húsaskjól og þá hafa mannúðarstofnanir og borgarasamtök reynt að veita aðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×