DPA fréttastofan segist hafa heimildir fyrir því að ökumaður bílsins sé hælisleitandi frá Afganistan eða Pakistan. Hann er sagður þekktur hjá lögreglunni fyrir smáglæpi en aldrei verið talinn hafa tengsl við hryðjuverkasamtök.

Flutningabíllinn var á pólskum númerum og inni í honum voru stálbitar, en losa átti farminn í dag.
Forðast að kalla árásina hryðjuverk
Þýskir ráðamenn sem hafa tjáð sig um árásina hafa reynt að forðast það að kalla árásina hryðjuverk á þessum tímapunkti. Thomas de Maizere, innanríkisráðherra landsins, sagði hins vegar margt benda til þess að um sé að ræða hryðjuverk. Lögreglan í Berlín hefur nú sagst ganga út frá því að árásin hafi verið hryðjuverk og því verði hún rannsökuð sem slík.
Jólamarkaðurinn í Charlottenburg er afar vinsæll enda skammt frá helstu verslunargötu borgarinnar, Kurfürstendamm.
Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi lent í árásinni en utanríkisráðuneytið hvetur alla Íslendinga í Berlín sem ekki hafa látið vita af sér, að gera það svo fljótt sem auðið er.