Dagamunur Kristín Ólafsdóttir skrifar 15. febrúar 2017 07:00 Undanfarin misseri hef ég orðið vör við örar breytingar. Breytingarnar sem um ræðir varða utanumhald tímans, sjálft dagatalið. Það er að tútna út. Að vestan, yfir Atlantshafið, berast okkur Íslendingum nú gjafir í formi glansandi nýrra hátíðisdaga og fraktskipinu stýrir kapítalisminn. Fyrst kom hrekkjavakan, plasthúðuð og útblásin frænka öskudagsins, sem íslenskar fyllibyttur tóku fyrstar upp á sína arma og notuðu sem afsökun til að djamma einn aukadag á ári í búningi. Í kjölfarið fylgdu börnin. Verslanir komust í feitt. Kaupið og borðið og kaupið meira, sögðu þær. Og þar með varð til enn ein peningavélin, kirfilega dulbúin sem ný og kjörin ástæða til fagnaðar. Nú síðast í gær var svo boðið upp á kaupæðiskarnival í nafni heilags Valentínusar. Ástinni, elskendum og sálufélögum hvers konar, var hampað með hagstæðum tilboðum á alls konar vörum – fyrir tvo. Enn fremur spratt fram glænýtt tilefni til markaðssetningar á hughreystingu fyrir einstæðinga, sem hingað til hafa fengið að vera í friði 14. febrúar. Rótgrónir íslenskir tyllidagar eru auðvitað knúnir áfram af sömu hjólum. Allt snýst um að versla og auglýsa og belgja sig út af einhverju stórkostlega ónauðsynlegu. Bolludagur, mæðradagur, bóndadagur. Páskarnir og jólin. Endurunnin uppskrift í boði jakkafataklæddra karla með vindil í munnvikinu og seðlabúnt í brjóstvasanum. Að endingu vil ég svo biðja ykkur öll um að láta eins og þetta pistilkorn sé harkaleg ádeila á stjórnlausa neytendavæðingu hátíðisdaga og alls ekki innihaldsrýr romsa, skrifuð í örvæntingu að morgni Valentínusardags af ungri konu sem er umfram allt bitur yfir því að vera einhleyp.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Ólafsdóttir Mest lesið Takk Sigurður Ingi Helgi Héðinsson Skoðun Krónan býr sig ekki til sjálf Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin stefnir í gjaldþrot!! Helgi Sigurður Haraldsson Skoðun ,,Mig langar svo bara að geta kennt þessum 25 börnum“ Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Læknaeiðurinn og dánaraðstoð: Hvað þýðir „að valda ekki skaða“? Ingrid Kuhlman Skoðun Mér kvíðir slæm íslenska ungmenna Elín Karlsdóttir Skoðun Íslensk fátækt er bara kjaftæði Unnur Hrefna Jóhannsdóttir Skoðun Verjum mikilvæga starfsemi Ljóssins Guðbjörg Jónsdóttir,Helga Tryggvadóttir,Sigurdís Haraldsdóttir Skoðun Fyrrverandi lögreglumaður heyrir enn röddina Sigurður Árni Reynisson Skoðun Af hverju hafa Danir það svona óþolandi gott? Björn Teitsson Skoðun
Undanfarin misseri hef ég orðið vör við örar breytingar. Breytingarnar sem um ræðir varða utanumhald tímans, sjálft dagatalið. Það er að tútna út. Að vestan, yfir Atlantshafið, berast okkur Íslendingum nú gjafir í formi glansandi nýrra hátíðisdaga og fraktskipinu stýrir kapítalisminn. Fyrst kom hrekkjavakan, plasthúðuð og útblásin frænka öskudagsins, sem íslenskar fyllibyttur tóku fyrstar upp á sína arma og notuðu sem afsökun til að djamma einn aukadag á ári í búningi. Í kjölfarið fylgdu börnin. Verslanir komust í feitt. Kaupið og borðið og kaupið meira, sögðu þær. Og þar með varð til enn ein peningavélin, kirfilega dulbúin sem ný og kjörin ástæða til fagnaðar. Nú síðast í gær var svo boðið upp á kaupæðiskarnival í nafni heilags Valentínusar. Ástinni, elskendum og sálufélögum hvers konar, var hampað með hagstæðum tilboðum á alls konar vörum – fyrir tvo. Enn fremur spratt fram glænýtt tilefni til markaðssetningar á hughreystingu fyrir einstæðinga, sem hingað til hafa fengið að vera í friði 14. febrúar. Rótgrónir íslenskir tyllidagar eru auðvitað knúnir áfram af sömu hjólum. Allt snýst um að versla og auglýsa og belgja sig út af einhverju stórkostlega ónauðsynlegu. Bolludagur, mæðradagur, bóndadagur. Páskarnir og jólin. Endurunnin uppskrift í boði jakkafataklæddra karla með vindil í munnvikinu og seðlabúnt í brjóstvasanum. Að endingu vil ég svo biðja ykkur öll um að láta eins og þetta pistilkorn sé harkaleg ádeila á stjórnlausa neytendavæðingu hátíðisdaga og alls ekki innihaldsrýr romsa, skrifuð í örvæntingu að morgni Valentínusardags af ungri konu sem er umfram allt bitur yfir því að vera einhleyp.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Verjum mikilvæga starfsemi Ljóssins Guðbjörg Jónsdóttir,Helga Tryggvadóttir,Sigurdís Haraldsdóttir Skoðun
Verjum mikilvæga starfsemi Ljóssins Guðbjörg Jónsdóttir,Helga Tryggvadóttir,Sigurdís Haraldsdóttir Skoðun