Enski boltinn

Dagný Brynjarsdóttir töluvert frá því að spila með landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir er frá vegna meiðsla.
Dagný Brynjarsdóttir er frá vegna meiðsla. vísir/anton brink
Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, er ekki í leikmannahópnum sem mætir Slóvakíu og Hollandi í vináttuleikjum í næsta mánuði vegna meiðsla.

Dagný er búin að glíma við meiðsli í nokkra mánuði og var tæp fyrir Algarve-mótið eins og hún ræddi um í viðtali við Vísi í byrjun febrúar. Hún fór með til Algarve en tók aðeins þátt í einum leik.

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, var spurður út í stöðuna á Dagnýju á fréttamannafundi í dag þar sem hópurinn fyrir næsta verkefni var tilkynntur.

„Staðan á Dagnýju er sú að hún er ekki byrjuð að spila og hún hefur ekki náð að taka meira en eina til tvær æfingar í röð. Hún er í bataferli en er töluvert frá því að geta spilað með landsliðinu,“ sagði Freyr.

„Markmiðið hjá okkur og Portland er það að hún geti byrjað að spila í lok apríl eða í byrjun mái og verði þá í topp standi á EM,“ sagði Freyr enn fremur en Evrópumótið í Hollandi hefst í júlí.

Auk Dagnýjar er Hólmfríður Magnúsdóttir frá vegna meiðsla sem og Sandra María Jessen og þá er árið farið hjá Dóru Maríu Lárusdóttur sem sleit krossband á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×