Enski boltinn

Freyr fundaði með Hörpu: „Svarið var jákvætt“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir var markahæsti leikmaður síðustu leiktíðar.
Harpa Þorsteinsdóttir var markahæsti leikmaður síðustu leiktíðar. vísir/ernir
„Ég fundaði með Hörpu fyrir viku síðan. Það var í fyrsta sinn sem við ræddum málin eftir barnseignina,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna, á fréttamannafundi sínum í Laugardalnum í dag.

Freyr tilkynnti hópinn fyrir komandi verkefni á móti Slóvakíu og Hollandi en þar var Harpa eðlilega ekki þar sem hún eignaðist barn fyrir tveimur vikum síðan.

Íslenska liðinu hefur gengið illa að skora úr framherjastöðunni eftir að Harpa þurfti frá að hverfa vegna óléttunnar en fremsti leikmaður Íslands hefur ekki komið boltanum í netið frá því Harpa fór í frí.

„Ég þurfti fyrst og fremst að fá svör við því hvort hún ætlar að halda áfram í fótbolta og svarið við því var jákvætt. Tíminn leiðir svo í ljós hvort hún verði komin í nægilega gott stand til að spila fyrir landsliðið. Við tökum eina viku og einn leik í einu og sjáum hvað tíminn leiðir í ljós,“ sagði Freyr sem viðurkennir fúslega mikilvægi hennar.

„Hún myndi klárlega hjálpa liðinu. Hún gerir íslenska landsliðið betra þegar hún er í sínu besta formi. Hún skorar ekki bara mörk heldur skapar hún pláss fyrir liðsfélagana og tekur mikið til sín. Við höfum fundið fyrir því þegar hún er ekki með okkur," sagði Freyr Alexandersson.

Hann er samt ekki búinn að gefast upp á öðrum leikmönnum sem hafa fengið tækifæri í framherjastöðunni í fjarveru Hörpu en er samt ekki ánægður með allt sem hann hefur séð.

„Ég get alveg viðurkennt það að svörin sem ég hef fengið hafa ekki verið öll góð. Ég er ekki búinn að gefast upp á þeim leikmönnum sem hafa fengið tækifæri. Þær hafa hæfileika og möguleika á stíga upp en tíminn er naumur,“ sagði Freyr Alexandersson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×