Fótbolti

Sjáðu markið hjá Matta Villa og stoðsendingu Óttars | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óttar Magnússon karlsson byrjar vel í Noregi.
Óttar Magnússon karlsson byrjar vel í Noregi. vísir/getty
Íslendingaliðin Rosenborg og Molde eru bæði með sex stig eftir fyrstu tvo leiki sína í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta en þau unnu bæði leiki sína í gærkvöldi.

Rosenborg fylgdi eftir 3-0 sigri á Odd í fyrstu umferðinni með öðrum 3-0 sigri á Sandefjord á útivelli en Ingvar Jónsson, landsliðsmarkvörður Íslands, stendur vaktina í marki Sandefjord.

Matthías Vilhjálmsson skoraði fyrsta mark Rosenborgar í leiknum eftir að markalaust var í hálfleik. Sandefjord missti mann af velli á lokamínútu fyrri hálfleiksins og gengu meistararnir á lagið í þeim síðari.

Matthías skoraði með skalla af stuttu færi eftir fallega sókn Rosenborgar en hann fékk stoðsendingu frá Fredrik Midtsjö. Þetta er fyrsta mark Matthíasar á tímabilinu en hann var ónotaður varamaður í fyrsta leik.

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Molde, stillti upp ungu íslensku framherjapari í 2-1 sigri á Lilleström í gær. Björn Bergmann Sigurðarson er búinn að byrja báða leiki Molde á tímabilinu en hann lagði upp sigurmarkið í fyrstu umferð.

Hann hélt vitaskuld sæti sínu í byrjunarliðinu en Óttar Magnús Karlsson kom inn í liðið fyrir Fredrik Brustad sem skoraði sigurmarkið á móti Kristiansund í fyrstu umferðinni.

Óttar byrjaði vel í sínum fyrsta leik sem atvinnumaður í efstu deild og lagði upp fyrra mark Molde með fallegri sendingu inn fyrir vörnina. Sander Svendsen þakkaði kærlega fyrir sig og skoraði einn á móti markverði Lilleström.

Óttar fékk boltann eftir að Senegalinn Babacar Sarr vann skallaeinvígi á miðjunni en sá öflugi miðjumaður spilaði með Selfossi í Pepsi-deildinni fyrir fimm árum síðan.

Smelltu hér til að sjá markið hjá Matta Villa en sóknin hefst á 2:20.

Smelltu hér til að sjá stoðsendingu Óttars Magnúsar en sóknin hefst á 1:14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×