
Áform samvinnufélagsins um að byggja Rósasel, á um 20 þúsund fermetra lóð við síðasta hringtorgið áður en komið er að flugstöðinni, voru kynnt í ársbyrjun 2016 undir vinnuheitinu Rósaselstorg. Framkvæmdum við fyrsta áfanga átti þá að ljúka á þessu ári og í kjölfarið hófst leit að fjárfestum að verkefninu. Í ágúst í fyrra var tilkynnt um viljayfirlýsingar við fjögur fyrirtæki um rekstur í verslunarkjarnanum. Nettó, sem er í eigu Samkaupa, dótturfélags Kaupfélags Suðurnesja, myndi opna matvöruverslun, Olís reka þar bensínstöð og Subway, Pizza Hut, KFC, Taco Bell og Grill 66 veitingastaði.
„Við erum ennþá með viljayfirlýsingar við sömu aðila. Þeir koma einungis inn sem leigutakar en það eru ekki komnir skriflegir leigusamningar því við erum ekki enn komin með lóð og ekkert fast í hendi. Kaupfélag Suðurnesja er því enn sem komið er eini eigandi verkefnisins,“ segir Skúli og svarar aðspurður að heildarkostnaður þes nemi frá tæpum milljarði króna og upp í tæpa þrjá. Í fyrsta áfanga sé gert ráð fyrir 500 fermetra bensínstöð, verslun Nettó upp á þúsund fermetra og eitt þúsund fermetra veitinga- og þjónustuhluta. Áætlað er að framkvæmdir taki um tólf til sextán mánuði eftir að þær komast á fullt skrið.