Lífið

Eurovision atriði Svölu lekið á netið

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Upptaka af æfingu á atriðinu rataði á YouTube.
Upptaka af æfingu á atriðinu rataði á YouTube. Vísir/Andri Marinó
Það varð uppi fótur og fit í dag þegar í ljós kom að upptaka af æfingu á Eurovision atriði Íslands hefði lekið á netið. Myndbandið hefur verið tekið úr dreifingu.

„Það hefur einhver verið í salnum sem átti ekki að vera þar, tekið atriðið upp og einfaldlega sett upptökuna á netið,“ er haft eftir Felix Bergssyni, fararstjóra íslenska hópsins í frétt á vef RÚV.

Upptaka af æfingu á atriðinu, þar sem úkraínsk söngkona flutti lagið Paper í stað Svölu Björgvinsdóttur, rataði á YouTube og hafði fengið nokkrar athugasemdir og áhorf þegar lekinn kom í ljós.

Æfingin var til þess gerð að undirbúa tæknilið keppninnar og á upptökunni mátti sjá grafíkina sem notuð er í atriðinu þó að atriðið í heild hafi ekki lekið.

Felix segir það óheppilegt að einhver hafi stolist til að sýna atriðið opinberlega. Hann segir þó að undirbúningurinn hafi gengið mjög vel að lekanum undanskildum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×