Erlent

Minnst 130 hermenn féllu í árás Talibana

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn standa vörð nærri herstöðinni.
Hermenn standa vörð nærri herstöðinni. Vísir/AFP
Minnst 130 hermenn féllu í skipulagðri árás Talibana á herstöð í Afganistan í gær. Þar af eru flestir ungir menn sem höfðu nýverið gengið í herinn og voru í þjálfun. Bardagar stóðu yfir í nokkrar klukkustundir og minnst tíu vígamenn létu lífið, en einhverjir þeirra sprengdu sig í loft upp.

Vígamennirnir voru klæddir í herbúninga og komust inn í herstöðina áður en þeir hófu árás sína. Einn árásarmannanna var handsamaður samkvæmt BBC.

Herstöðin er staðsett í borginni Mazar-e-Sharif í norðurhluta Afganistan en herstöðin er aðalbækistöð herliðsins sem sér um að gæta öryggis í Kunduz-héraði, þar sem mikil átök hafa geisað undanfarna mánuði.

„Þetta voru ungir nýliðar sem höfðu komið til þess að fá þjálfun,“ sagði ónefndur hermaður við AFP fréttaveituna.

Flestir hermenn í stöðinni voru við bænir þegar árásin hófst og margir aðrir voru í matsal herstöðvarinnar. Herinn segir að vígamennirnir virðist hafa sérstaklega ráðist á þá hermenn. Talið er mögulegt að tala látinna gæti hækkað enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×