Innlent

Óvenju hlýtt loft yfir landinu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Það eru eflaust margir sem hlakka til að spóka sig í sólinni á Austurvelli í sumar.
Það eru eflaust margir sem hlakka til að spóka sig í sólinni á Austurvelli í sumar. Vísir/Andri Marinó
Óvenju hlýr loftmassi hefur nú sest yfir landið og í gær mældist mjög hár hiti á norðaustanverðu landinu.

Hæstu hitatölur sem mældust í gær voru:

22,8°C í Ásbyrgi

22,8°C í Bjarnarey

22,7°C á Húsavík.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar en til að setja tölurnar í samhengi er bent á að hæsti hiti sem mældist allt íðasta sumar var 24,9°C, þann 3. Júní á Egilsstaðaflugvelli og er það einungis 2 stigum hlýrra en mældist í gær.

Þá er útlit fyrir að í dag muni sunnanáttin ganga alveg niður og að áfram verði bjart og hlýtt veður. Það má reikna með að þokuloft verði með suðurströndinni og einnig með vesturströndinni í kvöld.

Áfram er útlit fyrir rólegt veður á landinu næstu daga. Ský og þokuloft verða algengari um helgina og þá dregur úr hita.

„Því miður virðist sem sumarið sé ekki komið til að vera, því langtímaspár gera ráð fyrir að þessum góðviðriskafla ljúki með kaldri norðanátt kringum miðja næstu viku,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Hægviðri, léttskýjað og hiti 13 til 19 stig. Sums staðar þokuloft við sjávarsíðuna og hiti 6 til 9 stig.

Á laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað og þokuloft með norður- og austurströndinni og hiti 5 til 8 stig. Víða léttskýjað sunnan- og vestanlands, einkum í uppsveitum, með hita að 18 stigum.

Á sunnudag:

Hæg breytileg átt. Skýjað um landið sunnanvert og hiti 6 til 12 stig. Bjart nokkuð víða norðantil og hiti að 17 stigum.

Á mánudag:

Hæg vestan- og norðvestanátt. Bjartviðri SA- og A-lands og hiti 12 til 17 stig, en skýjað að mestu í öðrum landshlutum og hiti 6 til 12 stig.

Á þriðjudag:

Vestan 5-10, skýjað og dálítil súld af og til, en þurrt um landið austanvert. Heldur kólnandi.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir stífa norðanátt. Rigning, slydda eða snjókoma norðan og austanlands og hiti 0 til 3 stig. Bjartviðri sunnan heiða og hiti 3 til 8 stig að deginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×