Fótbolti

Frábært mark Guðmundar nokkrum sekúndum frá því að vera sigurmark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson.
Guðmundur Þórarinsson. Vísir/Getty
Guðmundur Þórarinsson var næstum því hetja sinna manna í Norrköping í kvöld þegar liðið sótti stig til Stokkhólms í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Norrköping komst þrisvar yfir í leiknum á móti Djurgården en varð að sætta sig við 3-3 jafntefli.

Guðmundur Þórarinsson kom inná sem varamaður á 69. mínútu leiksins og frábært mark hans kom Norrköping í 3-2 á 89. mínútu. Það leit allt út fyrir að það yrði sigurmarkið í leiknum en Djurgården jafnaði á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Það má sjá markið hans Guðmundar með því að smella hér. Hann tók við boltanum, lagði hann fyrir sig og lét vaða á markið.

Djurgården hafði áður jafnað á 23. og 65. mínútu eftir að Norrköping komst í 1-0 á 5. mínútu og í 2-1 á 28. mínútu.

Jón Guðni Fjóluson spilaði allan leikinn í miðri vörn Norrköping og Guðmnundur kom inná sem varamaður rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok en Alfons Sampsted sat allan tímann á varamannabekknum.

Norrköping átti þarna möguleika á því að vinna sinn þriðja leik í röð en liðið er fimm sætum ofar en í Djurgården í töflunni.

Guðmundur Þórarinsson var þarna að skora sitt fyrsta deildarmark fyrir Norrköping en félagið keypti hann frá Noregsmeisturum Rosenborg fyrir tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×