Rödd ljóðsins er rödd mennskunnar Magnús Guðmundsson skrifar 19. maí 2017 10:15 Sigurður Pálsson tók við Maístjörnunni, í Þjóðarbókhlöðunni á degi ljóðsins, fyrir bók sína Ljóð muna rödd. Fréttablaðið/Stefán Maístjarnan, ný ljóðabókaverðlaun á vegum Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafn Íslands, voru afhent í gær á degi ljóðsins. Verðlaunahafinn, Sigurður Pálsson, flutti ávarp af því tilefni sem birtist hér í heild með leyfi skáldsins. Góðir samkomugestir! Hjartans þakkir, ég tek við þessum verðlaunum með auðmýkt og stolti. Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun RSÍ og Landsbókasafnsins er frábær hugmynd og mikilvæg. Í ár eru fimmtíu ár liðin frá því að ljóðtextar eftir mig komu fyrst fyrir almenningssjónir, það var í tímaritinu Birtingi, ritstjórarnir Einar Bragi og Thor Vilhjálmsson tóku þessum átján ára dreng ákaflega vel og voru svo vinsamlegir og uppörvandi að ekki gleymist. Þeim skal þakkað enn og aftur. Nokkrum árum síðar gaf ég út mína fyrstu bók, Ljóð vega salt, útgefandinn var Sigfús Daðason, ég stend í eilífri þakkarskuld við hann. Hann var reyndar meira en útgefandi, hann var ídol mitt og fyrirmynd í ljóðlist ásamt Þorsteini frá Hamri og Hannesi Péturssyni.En nokkur erlend skáld voru ekki síður mikilvæg sem fyrirmyndir og viðmið, þau las ég fyrst í splunkunýjum íslenskum þýðingum á þessum árum, frönsk skáld í þýðingu Jóns Óskars, Vladimir Majakovskí og bók hans Ský í buxum í þýðingu Geirs Kristjánssonar, svo var það Goðsaga eftir gríska nóbelsskáldið Giorgos Seferis í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Ástæða er til að þakka þýðendunum, brúarsmíði þeirra er ákaflega mikilvæg. Ljóðaþýðingar minna okkur á að ljóðlistin er alþjóðleg, Lýðveldi ljóðsins nær yfir allan heiminn. Í okkar heimshluta nær það tvö þúsund og sex hundruð ár aftur í tímann þegar forngríska skáldkonan Saffó var á dögum. Ljóðlistin er innri rödd bókmenntanna. Rödd ljóðsins er rödd mennskunnar sem aldrei gefst upp í heimi sem böðlast áfram. Rödd friðar í ofbeldisdýrkandi heimi. Rödd mannréttinda og jöfnuðar í heimi þar sem átta menn eiga jafnmikil auðæfi og 50% af mannkyninu. Rödd frelsis og lýðræðis í heimi sem er dauðþreyttur á misnotkun á hugtökunum frelsi og lýðræði. Rödd ljóðsins vinnur gegn ofstopafullri einsleitni í notkun tungumálsins, hún býr yfir margræðni og blæbrigðum, býr til hugrenningatengsl, tilfinningatengsl, allan fínvefnað tungumálsins.En umfram allt er rödd ljóðsins hin heilaga innri rödd hvers og eins, röddin sem gerir okkur að einstaklingum í samfélagi annarra. Portúgalska stórskáldið Fernando Pessoa sagði að eitt mikilvægasta hlutverk ljóðlistarinnar væri að standa vörð um hið huglæga samhengi veru okkar, standa vörð um þessa veru innra með hverjum og einum, veruna sem varð til á bernskuárunum, veruna sem tilheyrir hinu magíska, goðsagnatengda og draumvirka svæði innra með okkur. Rödd ljóðsins. Við getum leitað til hennar á dimmum dögum þegar ráðamenn stærstu ríkja heims standa fyrir iðnvæðingu lyga, mannfyrirlitningar og ofbeldisdýrkunar. Rödd ljóðsins í Bandaríkjunum, hverjir eru fulltrúar hennar? Walt Whitman, Allen Ginsberg, Bob Dylan, Ilya Kaminsky og tugþúsundir annarra. Það er hin raunverulega rödd Bandaríkjanna. Og í Rússlandi: alla leið frá Púshkín er óstöðvandi breiðfylking: Vladimir Majakovskí, Anna Akhmatova, Osip Mandelstam, Marína Tsvetajeva, Boris Pasternak, Evgení Evtusjenkó, Jósef Brodský. Það er hin raunverulega rödd Rússlands og hún mun heyrast ótrufluð eftir að mislukkaðir ráðamenn eru löngu horfnir. Og þannig gæti ég farið land úr landi. Því Lýðveldi ljóðsins er alþjóðlegt, á landamærum er ekkert eftirlit, engir veggir, engir múrar, bara brýr, ekkert nema hjálpsamir hugsjónamenn sem reyna að koma textum og röddum af einu tungumáli á annað, það góða fólk kallast þýðendur. Fyrir fimmtíu árum kynntist ég nýju stórskáldi á hálfs mánaðar fresti, flest þeirra hafa verið ferðafélagar mínir æ síðan. Hin síðari ár hefur þeim fækkað sem ég uppgötva en þeim mun stórkostlegri er tilfinningin að uppgötva stórskáld. Fyrir fimm árum kynntist ég einu slíku á ljóðlistarþingi, hann heitir Ilya Kaminsky. Fæddur í Úkraínu, flutti barn að aldri með fjölskyldunni til Bandaríkjanna og skrifar á ensku. Ég er að þýða ljóðabók hans Dansað í Ódessa. Ég ætla að lokum að leyfa ykkur að heyra eitt ljóð úr henni, það er úr ljóðaflokknum Musica Humana, sem er óður til Osip Mandelstam. Það hefst á stuttum inngangi sem hljóðar svo: [Sumarið 1924 fór Osip Mandelstam með unga eiginkonu sína til Sankti Pétursborgar. Nadezhda var það sem Frakkar kalla laide mais charmante, ófríð en sjarmerandi. Var hann sérvitringur? Auðvitað var hann það. Hann kastaði stúdenti niður stiga fyrir að kvarta undan því að hann væri ekki gefinn út. Osip öskraði: Var Saffó gefin út? Var Jesús Kristur gefinn út?] Skáld er rödd, segi ég, eins og Íkarus, hvíslandi að sjálfum sér meðan hann fellur til jarðar. Já, líf mitt er brotin trjágrein í vindinum, fellur til jarðar í norðrinu. Ég er núna að skrifa sögu um snjó, lampaljósið baðar skipin sem sigla um blaðsíðuna. En stundum síðdegis opnast Sálmalýðveldið og ég verð skelfingu lostinn að ég hafi ekki lifað, dáið, ekki nóg til þess að hripa þessa alsælu niður sem sérhljóða, heyra skvampið í skýrri, biblíulegri orðræðu. Ég les Platón, Ágústínus, einsemd atkvæða þeirra meðan Íkarus heldur áfram að falla. Og ég les Akhmatovu, hennar frjósama þyngd jarðbindur mig, hnetutréð á veröndinni andar að sér þurru lofti, dagsljósinu. Já, ég var lifandi. Ríkið hengdi mig upp á fótunum, ég sá dætur Sankti Pétursborgar, svani, lærði málfræði mávafylkinga og lenti fyrir fullt og allt á Púskínstræti, meðan minnið sat úti í horni og strokaði mig út með svampi. Ég hef gert mistök, já: í rúminu líkti ég ríkisstjórninni við vinkonu mína. Ríkisstjórnin! Hönd hrokafulls rakara sem rakar skinnið af. Öll dönsum við hamingjusamlega kringum hann.Ávarp Sigurðar birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. maí. Menning Mest lesið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Lífið Myndaveisla: Fríðustu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Meintur stuldur á borð RÚV Lífið „Að maður geti gert allt sjálfur hefur kennt mér margt“ Lífið Deila um gervigreind skekur Hollywood í aðdraganda Óskarsins Bíó og sjónvarp Kennir óprúttnum aðila um Instagram aðförina að eiginkonunni Lífið Ofsafengin sjálfsrækt getur reynst stórskaðleg Lífið Fyrsta samfélagsmiðlastjarna Íslands: „Ert þú að segja að ég sé feitur?“ Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Maístjarnan, ný ljóðabókaverðlaun á vegum Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafn Íslands, voru afhent í gær á degi ljóðsins. Verðlaunahafinn, Sigurður Pálsson, flutti ávarp af því tilefni sem birtist hér í heild með leyfi skáldsins. Góðir samkomugestir! Hjartans þakkir, ég tek við þessum verðlaunum með auðmýkt og stolti. Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun RSÍ og Landsbókasafnsins er frábær hugmynd og mikilvæg. Í ár eru fimmtíu ár liðin frá því að ljóðtextar eftir mig komu fyrst fyrir almenningssjónir, það var í tímaritinu Birtingi, ritstjórarnir Einar Bragi og Thor Vilhjálmsson tóku þessum átján ára dreng ákaflega vel og voru svo vinsamlegir og uppörvandi að ekki gleymist. Þeim skal þakkað enn og aftur. Nokkrum árum síðar gaf ég út mína fyrstu bók, Ljóð vega salt, útgefandinn var Sigfús Daðason, ég stend í eilífri þakkarskuld við hann. Hann var reyndar meira en útgefandi, hann var ídol mitt og fyrirmynd í ljóðlist ásamt Þorsteini frá Hamri og Hannesi Péturssyni.En nokkur erlend skáld voru ekki síður mikilvæg sem fyrirmyndir og viðmið, þau las ég fyrst í splunkunýjum íslenskum þýðingum á þessum árum, frönsk skáld í þýðingu Jóns Óskars, Vladimir Majakovskí og bók hans Ský í buxum í þýðingu Geirs Kristjánssonar, svo var það Goðsaga eftir gríska nóbelsskáldið Giorgos Seferis í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Ástæða er til að þakka þýðendunum, brúarsmíði þeirra er ákaflega mikilvæg. Ljóðaþýðingar minna okkur á að ljóðlistin er alþjóðleg, Lýðveldi ljóðsins nær yfir allan heiminn. Í okkar heimshluta nær það tvö þúsund og sex hundruð ár aftur í tímann þegar forngríska skáldkonan Saffó var á dögum. Ljóðlistin er innri rödd bókmenntanna. Rödd ljóðsins er rödd mennskunnar sem aldrei gefst upp í heimi sem böðlast áfram. Rödd friðar í ofbeldisdýrkandi heimi. Rödd mannréttinda og jöfnuðar í heimi þar sem átta menn eiga jafnmikil auðæfi og 50% af mannkyninu. Rödd frelsis og lýðræðis í heimi sem er dauðþreyttur á misnotkun á hugtökunum frelsi og lýðræði. Rödd ljóðsins vinnur gegn ofstopafullri einsleitni í notkun tungumálsins, hún býr yfir margræðni og blæbrigðum, býr til hugrenningatengsl, tilfinningatengsl, allan fínvefnað tungumálsins.En umfram allt er rödd ljóðsins hin heilaga innri rödd hvers og eins, röddin sem gerir okkur að einstaklingum í samfélagi annarra. Portúgalska stórskáldið Fernando Pessoa sagði að eitt mikilvægasta hlutverk ljóðlistarinnar væri að standa vörð um hið huglæga samhengi veru okkar, standa vörð um þessa veru innra með hverjum og einum, veruna sem varð til á bernskuárunum, veruna sem tilheyrir hinu magíska, goðsagnatengda og draumvirka svæði innra með okkur. Rödd ljóðsins. Við getum leitað til hennar á dimmum dögum þegar ráðamenn stærstu ríkja heims standa fyrir iðnvæðingu lyga, mannfyrirlitningar og ofbeldisdýrkunar. Rödd ljóðsins í Bandaríkjunum, hverjir eru fulltrúar hennar? Walt Whitman, Allen Ginsberg, Bob Dylan, Ilya Kaminsky og tugþúsundir annarra. Það er hin raunverulega rödd Bandaríkjanna. Og í Rússlandi: alla leið frá Púshkín er óstöðvandi breiðfylking: Vladimir Majakovskí, Anna Akhmatova, Osip Mandelstam, Marína Tsvetajeva, Boris Pasternak, Evgení Evtusjenkó, Jósef Brodský. Það er hin raunverulega rödd Rússlands og hún mun heyrast ótrufluð eftir að mislukkaðir ráðamenn eru löngu horfnir. Og þannig gæti ég farið land úr landi. Því Lýðveldi ljóðsins er alþjóðlegt, á landamærum er ekkert eftirlit, engir veggir, engir múrar, bara brýr, ekkert nema hjálpsamir hugsjónamenn sem reyna að koma textum og röddum af einu tungumáli á annað, það góða fólk kallast þýðendur. Fyrir fimmtíu árum kynntist ég nýju stórskáldi á hálfs mánaðar fresti, flest þeirra hafa verið ferðafélagar mínir æ síðan. Hin síðari ár hefur þeim fækkað sem ég uppgötva en þeim mun stórkostlegri er tilfinningin að uppgötva stórskáld. Fyrir fimm árum kynntist ég einu slíku á ljóðlistarþingi, hann heitir Ilya Kaminsky. Fæddur í Úkraínu, flutti barn að aldri með fjölskyldunni til Bandaríkjanna og skrifar á ensku. Ég er að þýða ljóðabók hans Dansað í Ódessa. Ég ætla að lokum að leyfa ykkur að heyra eitt ljóð úr henni, það er úr ljóðaflokknum Musica Humana, sem er óður til Osip Mandelstam. Það hefst á stuttum inngangi sem hljóðar svo: [Sumarið 1924 fór Osip Mandelstam með unga eiginkonu sína til Sankti Pétursborgar. Nadezhda var það sem Frakkar kalla laide mais charmante, ófríð en sjarmerandi. Var hann sérvitringur? Auðvitað var hann það. Hann kastaði stúdenti niður stiga fyrir að kvarta undan því að hann væri ekki gefinn út. Osip öskraði: Var Saffó gefin út? Var Jesús Kristur gefinn út?] Skáld er rödd, segi ég, eins og Íkarus, hvíslandi að sjálfum sér meðan hann fellur til jarðar. Já, líf mitt er brotin trjágrein í vindinum, fellur til jarðar í norðrinu. Ég er núna að skrifa sögu um snjó, lampaljósið baðar skipin sem sigla um blaðsíðuna. En stundum síðdegis opnast Sálmalýðveldið og ég verð skelfingu lostinn að ég hafi ekki lifað, dáið, ekki nóg til þess að hripa þessa alsælu niður sem sérhljóða, heyra skvampið í skýrri, biblíulegri orðræðu. Ég les Platón, Ágústínus, einsemd atkvæða þeirra meðan Íkarus heldur áfram að falla. Og ég les Akhmatovu, hennar frjósama þyngd jarðbindur mig, hnetutréð á veröndinni andar að sér þurru lofti, dagsljósinu. Já, ég var lifandi. Ríkið hengdi mig upp á fótunum, ég sá dætur Sankti Pétursborgar, svani, lærði málfræði mávafylkinga og lenti fyrir fullt og allt á Púskínstræti, meðan minnið sat úti í horni og strokaði mig út með svampi. Ég hef gert mistök, já: í rúminu líkti ég ríkisstjórninni við vinkonu mína. Ríkisstjórnin! Hönd hrokafulls rakara sem rakar skinnið af. Öll dönsum við hamingjusamlega kringum hann.Ávarp Sigurðar birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. maí.
Menning Mest lesið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Lífið Myndaveisla: Fríðustu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Meintur stuldur á borð RÚV Lífið „Að maður geti gert allt sjálfur hefur kennt mér margt“ Lífið Deila um gervigreind skekur Hollywood í aðdraganda Óskarsins Bíó og sjónvarp Kennir óprúttnum aðila um Instagram aðförina að eiginkonunni Lífið Ofsafengin sjálfsrækt getur reynst stórskaðleg Lífið Fyrsta samfélagsmiðlastjarna Íslands: „Ert þú að segja að ég sé feitur?“ Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira