„Við fórum fram á lögbannsbeiðni í lok nóvember á vöru þeirra Toppís sem var samþykkt og þeir komu með nýtt nafn á ísinn sinn sem heitir nú Happís. Þeir hafa aftur á móti ekki viðurkennt að við eigum vörumerkið Toppís, og vilja fá nafnið afskráð hjá Einkaleyfastofu á þeirri forsendu að við höfum ekki notað vörumerkið nógu mikið. Við áttum okkur ekki á framgangi þeirra og höfum varið okkar vörumerki,“ segir Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Kjöríss.

„Við höfum notað þetta meira og minna alla tíð. Þeir hafa notað vörumerkið Toppur og eiga það skráð,“ segir Valdimar.
Ragnar Birgisson, framkvæmdastjóri Emmessís, segir fyrirtækið hafa orðið fyrir tjóni vegna lögbannsins enda hafi sala og dreifing á vörunni verið hafin.
„Við höfðum unnið með auglýsingastofu við að finna nafnið og hanna vörumerki. Okkur fannst það í takt við að við erum með vinsælasta toppinn á Íslandi, Hnetutopp, og annað af okkar slagorðum er „Emmessís toppurinn á ísnum“. Okkur láðist að athuga hjá Einkaleyfastofu hvort þetta væri skráð en höfðum ekki orðið vör við neinn Toppís á markaðnum og töldum því ekki að nafnið væri frátekið,“ segir Ragnar.
„Við höfðum svo samband við lögfræðing sem benti okkur á að þegar þú hefur ekki notað vörumerki í fimm ár fellur einkaleyfið úr gildi. Síðan kom í ljós að þeir eru ekki að selja undir vörumerkinu Toppís heldur Lúxus toppís. Þar kemur nafnið fram en eingöngu sem lýsing en ekki vörumerki. Kjörís þurfti að leggja fram tryggingu í lögbanninu og síðar að stefna okkur til að fá hana til baka. Við erum fyrst og fremst að endurheimta eitthvað af því tjóni sem við urðum fyrir. Ef lögbannið dæmist ógilt þurfa þeir að borga okkur tjón sem við höfum orðið fyrir,“ segir Ragnar.