Erlent

Donald Trump fagnað með nýjum heiðurssöng af kirkjukór frá Dallas

Heimir Már Pétursson skrifar
Donald Trump forseta Bandaríkjanna tókst að láta athöfn með fyrrverandi hermönnum snúast um hann sjálfan og skoðanir hans á fjölmiðlum. Hann sagði Bandaríkjamenn elska land sitt, fjölskyldu, frelsið og Guð en gerfifjölmiðlar reyndu að þagga niður í þeim.

Donald Trump forseti Bandaríkjanna kom til Washingtonborgar í gærkvöldi í öllu minni flugvél en Boeing 747 sem forsetaembættið notar alla jafna og hélt beint á samkomu í Kennedy listamiðstöðinni. Þar hafði Fyrsta Baptistkirkjan í Dallas boðað til samkomu fyirir fyrrverandi hermenn sem margir hverjir höfðu særst og örkumlast í þjónustu sinni fyrir bandaríska herinn.

Það var nýlunda að Hail the Chif sem venjulega er spilað þegar forseti Bandaríkjanna gengur á svið var ekki fyrsta lagið sem var spilað var fyrir Trump, heldur nýtt lag sem kór safnaðrins söng og heitir Make America Great Again, eða gerum Bandaríkin aftur mikilfengleg, sem var slagorð Trump í kosningabaráttunni.

Forsetinn ávarpaði hermennina fyrrverandi nokkrum orðum, en fór svo fljótlega að tala um sjálfan sig og fjölmiðla sem hann er algerlega með á heilanum.

„Í kvöld heiðrum við fyrrverandi hermenn en við leiðum einnig hugann að því sem við berum umhyggju fyrir sem Bandaríkjamenn. Við unnum landi okkar, fjölskyldum okkar, frelsi okkar og við unnum okkar Guði,“ sagði Trump við mikinn fögnuð fyrrverandi hermanna og safnaðarmeðlima Baptistakirkjunnar í Dallas.

Svo byrjaði hefðbundið raus forsetans um fjölmiðla, sem fréttafulltrúar Hvíta hússins meira og minna sniðganga þessa dagana eða svara með ásökunum og skætingi.

„Falskir fjölmiðlar reyna að þagga niður í okkur en við leyfum þeim það ekki því fólkið veit sannleikann. Þessir fölsku fjölmiðlar reyndu að hindra för okkar í Hvíta húsið en ég er forsetinn en ekki þeir,“ sagði Donald Trump hinn ánægðasti með standandi lófaklapp viðstaddra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×