Fótbolti

Forseti FIFA: Myndbandsdómarar eru framtíð fótboltans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianni Infantino er mikill talsmaður þess að myndbandsupptöku verði notaðar til að hjálpa dómurum.
Gianni Infantino er mikill talsmaður þess að myndbandsupptöku verði notaðar til að hjálpa dómurum. vísir/getty
Gianni Infantino, forseti FIFA, er ánægður með hvernig tilraunin með myndbandsdómara í Álfukeppninni í Rússlandi hefur tekist.

Samkvæmt FIFA hefur sex risastórum og röngum ákvörðun verið breytt í Álfukeppninni með hjálp myndbandstækni. Aðrir hafa talað um að þetta nýja fyrirkomulag sé ruglingslegt og það taki óratíma að kveða upp dóma.

„Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að nota myndbandsdómara. Við þurfum að bæta samskiptin, læra hvernig á að nota myndbandsdómarana og hversu langan tíma þetta tekur,“ sagði Infantino.

„Það verða nokkrar deildir, ítalska og þýska, sem munu prófa að nota myndbandsdómara og það verður mjög gagnlegt. Myndbandsdómarar eru framtíðin í fótboltanum.“

Pierluigi Collina, einn besti dómari allra tíma og núverandi formaður dómaranefndar FIFA, segir að myndbandstæknin létti pressunni af dómaranum.

„Einn af dómurunum á mótinu sendi mér skilaboð eftir einn leikinn og sagði að hann nyti þess að dæma því hann fann minni pressu á sér,“ sagði Collina um áhrif myndbandsdómarans.

Síle og Þýskaland mætast í úrslitaleik Álfukeppninnar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×