Fótbolti

Sif: Ég trúði því ekki að hún væri að dæma víti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sif Atladóttir í leiknum í kvöld.
Sif Atladóttir í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Sif Atladóttir átti frábæran leik í miðri vörn íslenska liðsins og var að vonum svekkt eftir að Frakkarnir náðu að tryggja sér sigur úr ódýrri vítaspyrnu í lokin. Sif tók undir það að henni liði eins og hún hafi verið rænd í þessum leik.

„Já ég verð að segja það. Þetta er mjög svekkjandi,“ sagði Sif eftir leikinn en hvernig varð henni við þegar hún sá dómarinn benda á vítapunktinn?

„Ég held að ég hafi öskrað manna hæst, nei eða eitthvað. Ég trúði þessu ekki. Það var búið að vera barningur allan leikinn og svo tekur hún svona ákvörðun á þessum tímapunkti. Hún sá okkur gera eitthvað sem má ekki gera í fótbolta. Við tökum því bara.,“ sagði Sif

„Við vorum búnar að skoða þær vel og mér fannst við bara loka á þær. Þær eru sterkar fram á völlinn en mér finnst við loka á styrkleika þeirra,“ sagði Sif.

„Ég ógeðslega sátt við liðið og stolt af öllum hvort sem þær spiluðu eða voru fyrir utan. Það var liðsheildin sem gerði þetta og svekkjandi að fá ekki neitt út úr þessu,“ sagði Sif.

„Freysi er búinn að undirbúa okkur vel fyrir þennan tilfinningarússíbana sem við þurfum að ganga í gegnum. Maður tekur heilt tímabil á þremur vikum. Við erum búnar að undirbúa okkur vel með tilfinningastjórnunina,“ sagði Sif

„Mér fannst spennumagnið vera frábært í dag. Það voru allir með yfirvegaðan haus og flottar á því,“ sagði Sif.

„Við svekkjum okkur kannski í klukkutíma. Þessi klukkutími væri kannski þrír dagar í venjulegu lífi en við höfum bara þennan klukkutíma. Svo er bara að fara að hugsa um Sviss á morgun,“ sagði Sif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×