Sport

Ein besta sundkona Íslands glímir við bakmeiðsli | Bara konur á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. Vísir/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir  verður ekki meðal keppanda á heimsmeistaramótinu í sundi sem fram fer í Búdapest 23. til 30. júlí næstkomandi.

Sundsamband Íslands sendir þrjá keppendur á Heimsmeistaramótið í sundi en Eygló Ósk getur ekki verið með vegna meiðsla. Allir keppendur Íslands að þessu sinni eru konur eða þær Bryndís Rún Hansen, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir.

Til stóð að þau Eygló Ósk Gústafsdóttir og Anton Sveinn Mckee tækju einnig þátt í mótinu, en af því getur ekki orðið þar sem Eygló Ósk á við bakmeiðsli að stríða, sem hafa ágerst, þannig að það var tekin ákvörðun í samráði við lækni og sjúkraþjálfara að hún sleppti mótinu í ár og hvíldi vel fyrir næsta tímabil.  Þetta kemur fram á heimasíðu Sundsambands Íslands.

Það er von allra að Eygló Ósk nái sér að fullu og sundsambandið vonast til þess að hún verði komin til keppni þegar á EM25 í desember.  Anton Sveinn tók sér í vor hlé frá sundiðkun um stundarsakir til að undirbúa framhaldsnám sitt í Bandaríkjunum.

Bryndís Rún Hansen keppir í 50 metra og 100 metra flugsundi og 100 metra skriðsundi, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir keppir í 50 metra skriðsundi og 50 metra baksundi og Hrafnhildur Lúthersdóttir keppir í 50 metra og 100 metra bringusundi.

Þau Jacky Pellerin landsliðsþjálfari, Unnur Sædís Jónsdóttir sjúkraþjálfari og Magnús Tryggvason formaður landsliðsnefndar SSÍ munu fylgja þeim.

Á sama tíma og HM fer fram í Búdapest, er EYOF, Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar, haldin í Györ í Ungverjalandi.  

Þar keppa í sundi fyrir Íslands hönd þeir Brynjólfur Óli Karlsson í 200 metra og 100 metra baksundi, Patrik Viggó Vilbergsson í 400 metra og 1500 metra skriðsundi og 400 metra fjórsundi og Viktor Forafonov í 100 metra, 200 metra og 400 metra skriðsundi og 200 metra flugsundi.  Með þeim verður Arna Þórey Sveinbjörnsdóttir þjálfari.

Þeir Hörður J. Oddfríðarson formaður SSÍ og Jón Hjaltason varaformaður SSÍ munu sækja ársþing FINA sem verður laugardaginn 22. júlí og fylgja síðan keppendum Íslands eftir á HM50 og EYOF.


Tengdar fréttir

Lét hinar halda að þær þyrftu ekki að hræðast mig

Það var rosalega gaman að hitta á sundkonuna Eygló Ósk Gústafsdóttur eftir undanúrslitin í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Ríó í fyrrinótt því þessi 21 árs gamli Ægiringur gat örugglega ekki verið glaðari þegar hún hitti undirritaðan.

Eygló Ósk: Mjög erfitt en líka ótrúlega gaman

Eygló Ósk Gústafsdóttir varð áttunda í 200 metra baksundi kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt en þetta er næstbesti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×