Körfubolti

Hlynur: Mestallan minn feril höfðum við litla trú á hlutunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta leikur fyrsta æfingaleikinn af átta fyrir Evrópumótið þegar það mætir Belgíu í Smáranum í kvöld. Liðin mætast svo aftur á Akranesi á laugardaginn.

Æfingar hófust á dögunum og Jón Arnór Stefánsson segir að þær hafi gengið vel.

„Æfingar hafa farið mjög vel af stað. Mér finnst eins og menn hafi bætt sig frá því í fyrra og síðustu ár. Menn eru í mjög góðu standi,“ sagði Jón Arnór í samtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson vill vinna leikinn gegn Belgum í kvöld þótt þjálfararnir noti eflaust tækifærið og leyfi mörgum að spila.

„Mann langar alltaf að vinna, sérstaklega á heimavelli. En ég skil þjálfarana að hafa önnur markmið; rúlla kerfum, skoða leikmenn og sjá hvernig menn passa inn í hin og þessi hlutverk. Það eru kannski tvenns konar markmið,“ sagði Hlynur.

Þeim Jóni Arnóri og Hlyni finnst íslenska liðið sterkt og sá síðarnefndi telur að hugarfarið sé orðið mun betra en það var.

„Mér finnst við alltaf að verða betri og betri, aðallega á andlegu hliðinni. Við erum byrjaðir að trúa þessu. Mestallan minn feril höfðum við litla trú á hlutunum. Við fórum kannski inn með þessu hugarfari að gera okkar besta og á topp degi eigum við kannski séns,“ sagði Hlynur en fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 19:15 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×