Fótbolti

Mamma Gunnhildar komin með fimmu í hnakkann

Kolbeinn Tumi Daðason í Ermelo skrifar
Mæðgurnar eru miklir stuðboltar og greinilega mjög nánar.
Mæðgurnar eru miklir stuðboltar og greinilega mjög nánar. Vísir
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir spilaði alla níutíu mínúturnar í 1-0 tapinu gegn Frökkum á þriðjudag. Ólíkt flestum leikmönnum liðsins mætti hún ekki á æfingu landsliðsins í gær heldur varð eftir á hótelinu með Söru Björk Gunnarsdóttur fyrirliða.

„Við tókum bara æfingar í ræktinni. Maður er vanur því að fara út á völl og hlaupa en við ákváðum nokkrar að fara frekar í ræktina og sundið. Minnka álagið á fæturnar. Við tókum hlaup í sundlauginni og fleira.“

Hún segir þó engan vafa á því að hún verði klár í slaginn fyrir leikinn gegn Sviss á laugardag.

„Já auðvitað. Maður er vanur þessu. Ég spila oft tvo leiki í viku í Noregi svo líkaminn er vanur þessu. Maður hefur undirbúið sig fyrir þetta lengi svo maður er tilbúin fyrir þetta.“

Viðtalið við Gunnhildi má sjá hér að neðan.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook og Twitter.



Gunnhildur Yrsa á átta systkini sem öll eru mætt til Hollands til að styðja hana og landsliðið.

„Ég held að þau séu fjórtán sem mættu, öll fjölskyldan. Ég fékk að hitta þau aðeins í gær og það var yndislegt.“

Þó þau styðji öll vel við bakið á Gunnhildi fer móðir hennar, Laufey Ýr Sigurðardóttir, fremst í flokki. Hún rakaði töluna fimm í hnakkann á sér á dögunum en það er númer Gunnhildar hjá landsliðinu.

„Mamma þarf alltaf að fara aðeins lengra en aðrir. Hún er yndisleg og henti í fimmu á hnakkann á sér. Ég hélt reyndar að hún myndi koma með blátt ár en það gerðist ekki. En ég er mjög ánægð með fimmuna.“

Þá er Gunnhildur sömuleiðis ánægð með heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta á hótel stelpnanna í gær.

„Það var mjög fínt að fá hann. Hann er mjög góður náungi, tók gott grín á okkur og sagði að þjóðin væri á bak við okkur. Það var yndislegt. Við erum tilbúnar í næsta leik.“

Að neðan má sjá innslag sem gert var um Gunnhildi sumarið 2012 þar sem móður hennar bar einmitt á góma.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×