Erlent

Ríki íslams og loftslagsbreytingar taldar stærstu ógnirnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Versnandi þurrkar og aðrar veðuröfgar eru á meðal þess sem menn óttast við loftslagsbreytingarnar sem menn valda nú á jörðinni.
Versnandi þurrkar og aðrar veðuröfgar eru á meðal þess sem menn óttast við loftslagsbreytingarnar sem menn valda nú á jörðinni. Vísir/Getty
Jarðarbúar telja íslömsku hryðjuverkasamtökin Ríki íslams og loftslagsbreytingar stærstu öryggisógnirnar um þessar mundir. Bandaríkjamenn skera sig hins vegar úr hópi vestrænna ríkja þar sem aðeins rúmur helmingur telur hnattræna hlýnun alvarlega ógn.

Pew-rannsóknamiðstöðin birti skoðanakönnun um stærstu öryggisógnirnar að mati íbúa í 38 löndum í dag. Á heimsvísu töldu 62% Ríki íslams meiriháttar ógn við öryggis síns lands og 61% voru þeirra skoðunar um loftslagsbreytingar.

Íbúar þrettán landa töldu loftslagsbreytingar stærstu ógnina en sautján að Ríki íslams væri hættulegra, að því er kemur fram í umfjöllun New York Times um könnunina.

Afneitun hægrimanna í Bandaríkjanna dregur niður meðaltalið

Í Bandaríkjunum voru loftslagsbreytingar hins vegar í þriðja sæti á eftir hryðjuverkasamtökunum og netárásum og töldu 56% þær aðsteðjandi hættu.

Gríðarlegir flokkadrættir einkenna viðhorf Bandaríkjamanna til loftslagsbreytinga en hægrimenn vestanhafs hafa lengi afneitað loftslagsvísindum.

Áhyggjurnar af loftslagsbreytingum voru mestar í Rómönsku Ameríku þar sem 74% íbúa sjö ríkja nefndu þær sem helstu hættuna. Rússar höfðu hvað minnstar áhyggjur af hnattrænni hlýnun en þær voru aðeins í fimmta sæti yfir hættur sem svarendur nefndu.

Þátttakendur í könnuninni voru beðnir um að velja á milli átta valkosta. Þar á meðal voru tölvuárásir annarra ríkja, ástand hagkerfis heimsins og flóttamannastraumur frá löndum eins og Írak og Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×