Þrír eru látnir eftir að til harðra átaka kom á milli hvítra þjóðernissinna og mótmælenda þeirra í bænum Charlottesville í Virginíu í gær. Rúmlega þrítug kona lést þegar maðurinn sem er nú í haldi ók bíl sínum á mótmælendur í göngugötu. Þá fórust tveir ríkislögreglumenn sem tóku þátt í aðgerðum í bænum í þyrluslysi.
Nítján manns til viðbótar eru sagðir særðir eftir að maðurinn, sem hefur verið nafngreindur sem James Alex Fields yngri, ók niður götuna á miklum hraða og bakkaði svo aftur yfir fleira fólk. Washington Post hefur eftir vitnum að gatan hafi verið full af andstæðingum hvítu þjóðernissinnanna.

Stærsti viðburður hvítra þjóðernissinna í áratugi
Hundruð hvítra þjóðernissinna, þar á meðal nýnasistar og meðlimir Ku Klux Klan, höfðu komið saman í Charlottesville til að taka þátt í stærsta viðburði þeirra í áratugi. Fjöldi þeirra gekk með kyndla í anda Ku Klux Klan til að mótmæla því að stytta af Robert E. Lee, herforingja Suðurríkjanna í Þrælastríðinu, yrði fjarlægð í Háskólanum í Virginíu á föstudagskvöld.
Fjöldi fólks kom hins vegar einnig til Charlottesville til þess að mótmæla hvítu þjóðernissinnunum. Strax í gærmorgun slóst í brýnu á milli andstæðra fylkinga. Fólk slóst á götum úti, lausamunum var kastað og ertandi efnum var sprautað.

Terry McAuliffe, ríkisstjóri Virginíu, lýsti yfir neyðarástandi vegna óeirðanna í gær. Á fréttamannafundi í gærkvöldi senda hann þau skilaboð til „allra hvítra þjóðernissinna og nasista sem komu til Charlottesville í dag: Farið heim. Þið eru ekki velkomnir í þessu mikla ríki.“
„Þið komuð hingað til að særa fólk og þið særðuð fólk. Mín skilaboð eru skýr: við erum sterkari en þið,“ sagði McAuliffe jafnframt.
„Hatur kom til bæjarins okkar í dag á hátt sem við óttuðumst en við höfðum aldrei raunverulega leyft okkur að ímynda okkur að myndi gera,“ sagði Maurice Jones, framkvæmdastjóri Charlottesville í gær.

Þrátt fyrir að átökin hafi brotist út snemma dags í gær heyrðist ekkert frá Donald Trump forseta fyrr en kl. 13 eftir hádegi. Þá tísti hann um að hann fordæmdi hatur og ofbeldi.
Á blaðamannafundi síðar um daginn nefndi Trump hvíta þjóðernissinna aldrei á nafn og og fordæmdi aðeins hatur, fordóma og ofbeldi „úr mörgum áttum“. Forsetinn svaraði ekki þegar hann var spurður hvort hann kærði sig um stuðning hvítra þjóðernissinna. Margir þeirra eru sagðar hafa klæðst derhúfum með slagorði Trump „Gerum Bandaríkin frábær aftur“.

Trump hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að fordæma ekki hvíta þjóðernissinna og skoðanir þeirra, þar á meðal frá þingmönnum eigin flokks. Öfgamennirnir eru sagðir hafa fagnað því að forsetinn hafi ekki talað gegn þeim.
Fjöldi þingmanna Repúblikanaflokksins fordæmi hvíta þjóðernissinna í yfirlýsingum í gær. Cory Gardner, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Koloradó, setti ofan í við Trump á Twitter.
„Herra forseti, við verðum að kalla það illa sínu raunverulega nafni. Þetta voru hvítir þjóðernissinnar og þetta voru innlend hryðjuverk,“ tísti þingmaðurinn.
Mr. President - we must call evil by its name. These were white supremacists and this was domestic terrorism. https://t.co/PaPNiPPAoW
— Cory Gardner (@SenCoryGardner) August 12, 2017
