Erlent

Karl Svíaprins og Sofia prinsessa hafa eignast sitt annað barn

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Filippus, Sofia og prinsinn Alexander.
Karl Filippus, Sofia og prinsinn Alexander. kungahuset
Karl Filippus Svíaprins og eiginkona hans, Sofia prinsessa, eignuðust sitt annað barn í morgun. Ekki hefur verið gefið upp hvort að um stúlku eða dreng var að ræða.

Frá þessu greinir sænska konungshöllin í tilkynningu. Barnið kom í heiminn á sjúkrahúsinu í Danderyd, norður af Stokkhólmi, klukkan 11:24 að staðartíma í morgun. Í tilkynningunni segir að móður og barni heilsast vel.

Fyrir eiga þau Karl Filippus og Sofia prinsinn Alexander sem kom í heiminn 19. apríl 2016. Þau gengu í hjónaband árið 2015.

Þetta er sjötta barnabarn sænska konungsins og Sylvíu drottningar. Viktoría krónprinsessa og Daníel prins eiga börnin Estelle (2012) og Óskar (2016) og Madeleine prinsessa og Chris O’Neill, eiginmaður hennar, börnin Leonore (2014) og Nicolas (2015). Nýlega var greint frá því að Madeleine gangi með sitt þriðja barn.

Uppfært 13:25:

Karl Filippus greindi frá því að fundi með blaðamönnum klukkan 13 að íslenskum tíma að þau Sofia hafi eignast annan son. Hann var 3.400 grömm þegar hann kom í heiminn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×