Körfubolti

Þjóðverjar sendu Frakka heim af Eurobasket | Slóvenar örugglega áfram

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Theis reynir að verja skot í leiknum í dag.
Theis reynir að verja skot í leiknum í dag. Vísir/getty
Þýskaland gerði sér lítið fyrir og vann þriggja stiga sigur 84-81 á Frakklandi í 8-liða úrslitum í Tyrklandi nú rétt í þessu en franska liðið sem vann til silfurverðlauna á síðasta móti fer því heim úr sextán liða úrslitunum.

Frakkland byrjaði leikinn vel og leiddi með níu stigum eftir fyrsta leikhluta en í næstu þremur leikhlutum höfðu Þjóðverjar betur. Náðu þeir að minnka muninn í sex stig undir lok fyrri hálfleiks og að skríða fram úr í lokaleikhlutanum en mest fór munurinn upp í sjö stig.

Daniel Theis var stigahæstur í þýska liðinu með 22 stig ásamt því að taka sjö fráköst en í franska liðinu var það NBA-leikmaðurinn Evan Fournier sem var stigahæstur með 27 stig.

Slóvenar sem voru með íslenska liðinu í riðli áttu í engum vandræðum með Úkraínu á sama tíma en sigurinn var í raun í höfn eftir þrjá leikhluta. Settu Slóvenar tóninn snemma og leiddu með fimmtán stigum í hálfleik en munurinn fór upp í 25 stig fyrir lokaleikhlutann.

Hinn bandaríski Anthony Randolph sem leikur með slóvenska liðinu var stigahæstur með 21 stig hjá Slóvenum en Maksym Pustozvonov var stigahæstur hjá Úkraínu með 11 stig ásamt því að taka tíu fráköst, tvöföld tvenna í lokaleik kappans á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×