Körfubolti

Finnar sigruðu í tvíframlengdum leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lauri Markkanen hélt áfram að spila vel fyrir Finna
Lauri Markkanen hélt áfram að spila vel fyrir Finna Vísir/getty
Finnar mörðu 90-87 sigur á Pólverjum í tvíframlengdum leik í lokaleik dagsins í A-riðli á Evrópumótinu í körfubolta.

Lokamínútur venjulegs leiktíma voru æsispennandi. Lauri Markkanen fékk þrjú vítaskot þegar 15 sekúndur voru eftir og setti þau öll niður og minnkaði forystu Pólverja niður í 2 stig.

Markkanen var svo aftur á ferðinni fjórum sekúndum seinna þegar hann stal boltanum og gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn með troðslu þegar 8 sekúndur lifðu á klukkunni.

Hvorugu liði tókst að stela sigrinum á síðustu metrunum og þurfti því að grípa til framlengingar.

Leikurinn var áfram í járnum í framlengingunni. Anthony Slaughter setti niður tveggja stiga skot þegar 13 sekúndur voru eftir, en Markkanen jafnaði leikinn fyrir heimamenn á síðustu sekúndunum og þurfti aftur að framlengja.

Heimamenn náðu að kreista fram auka kraft fyrir seinni framlenginguna og komust 5 stigum yfir þegar 17 sekúndur voru eftir. Slaughter minnkaði muninn með þriggja stiga körfu þegar 7 sekúndur voru eftir, en nær komust Pólverjarnir ekki og Finnar fögnuðu sigri.

Markkanen var besti maður Finna í dag, með 27 stig, 9 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta.

Hjá Pólverjum voru Slaughter og Adam Waczynski báðir með 18 stig.

Finnar eru því komnir upp að hlið Frakka í riðlinum með 5 stig eftir þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×