Innlent

„Við þurfum að hafa faðminn galopinn“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, á Alþingi í kvöld.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, á Alþingi í kvöld. vísir/ernir
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, gerði geðheilbrigðismál að umtalsefni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. Geðheilbrigðismál hafa mikið verið til umfjöllunar undanfarnar vikur, ekki hvað síst eftir að tveir ungir menn sviptu sig lífi á geðdeild Landspítalans með nokkurra daga millibili í ágúst.

Heilbrigðisráðherra sagði það einkenni á íslensku samfélagi  að okkur væri ekki sama um hvort annað. Samkennd og samvinna  þegar vandamál steðjuðu að væri eitthvað skýrasta styrkleikamerki þjóðarinnar.

Þá sagði Óttarr að hann legði ríka áherslu á geðheilbrigðismál sem heilbrigðisráðherra. Kvaðst hann meðal annars ætla að styrkja Barna-og unglingageðdeild Landspítalans og heilsugæsluna.

„Á sunnudaginn var alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna. Það var mér dýrmætt að fá að taka þátt í kyrrðarstund í dómkirkjunni og öðrum viðburðum. Hvert einasta sjálfsvíg er harmleikur. Hvert sjálfsvíg er ósigur fyrir samfélagið, fyrir okkur öll. Það er merki um að það hafi mistekist að halda utan um einstakling sem þurfti á því að halda. Við getum aldrei samþykkt að það sé eðlilegt eða óumflýjanlegt. Við vitum að nú þegar er mörgum hjálpað. Það er vel og þakkarvert. En við getum og eigum að gera betur, stíga fyrr inn. Það er kannski aldrei hægt að halda utan um alla alltaf, en við þurfum að hafa faðminn galopinn. Það þarf að vera skýrt aðgengi að upplýsingum og stuðningi. Þetta er verkefni samfélagsins alls. Kerfisins, ættingja og vina, félagasamtaka, skólanna og líka okkar stjórnmálamanna,“ sagði heilbrigðisráðherra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×