Íslenski boltinn

Hjörtur Logi á leið í FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hjörtur Logi er einn reynslumesti atvinnumaður Íslands í dag en hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin misseri.
Hjörtur Logi er einn reynslumesti atvinnumaður Íslands í dag en hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin misseri. vísir/vilhelm
Hjörtur Logi Valgarðsson er á leiðinni heim í FH og mun spila með liðinu í Pepsi-deildinni næsta sumar. Hann er búinn að ná samningum við FH og verður mögulega tilkynnt um félagaskiptin í dag, samkvæmt heimildum Vísis.

Hjörtur Logi er uppalinn FH-ingur og varð meistari með liðinu árin 2008 og 2009 en hann fór út í atvinnumennsku eftir að liðið missti naumlega af Íslandsmeistaratitlinum til Breiðabliks árið 2010.

Hann spilaði í þrjú ár með IFK Gautaborg í Svíþjóð áður en hann gekk í raðir Sogndal í eitt ár en undanfarin þrjú tímabil hefur hann spilað með Örebro í sænsku úrvalsdeildinni. Á þessu tímabili hefur hann spilað 18 leiki fyrir liðið, þar af ellefu sem byrjunarliðsmaður.

Bakvörðurinn öflugi á tíu landsleiki að baki fyrir Ísland en hann var einn allra besti leikmaður Pepsi-deildarinnar þegar hann fór út fyrir sjö árum síðan.

FH er búið að tryggja sér Evrópusæti í Pepsi-deildinni fyrir næsta tímabil og getur enn þá náð öðru sætinu í deildinni í lokaumferðinni á laugardaginn. Það yrði þá 14. tímabilið í röð sem liðið endar í efstu tveimur sætunum.

Hafnfirðingar hafa verið gagnrýndir fyrir leikmannakaupin sín síðasta vetur en þeir virðast ætla að byrja af krafti að þessu sinni með því að fá einn af sínum dáðustu sonum heim í Krikann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×