Íslenski boltinn

Willum: Unnum ekki nógu marga fótboltaleiki til að enda ofar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lið KR í Pepsi-deild karla í fótbolta þarf að víkja fyrir Framsóknarflokknum. Willum Þór Þórsson, þjálfari liðsins, ætlar í framboð fyrir flokkinn í næstu Alþingiskosningum og lætur því af störfum sem þjálfari KR.

Willum tók við liði KR-inga síðasta sumar en hann rétti þar skútuna af og endaði í þriðja sæti. KR er nú þegar búið að missa af Evrópusæti á þessu tímabili en það er sem stendur í fjórða sæti þegar ein umferð er eftir.

„Það verður eitthvað undan að láta í þessu. Þetta var erfið ákvörðun en nú er ég búinn að taka hana og þá hendi ég mér í slaginn í Pólitíkinni. Pólitíkin togaði ekki meira en boltinn. Þetta er bara ákvörðun sem maður tekur með fjölskyldunni,“ segir Willum Þór.

Willum viðurkennir að hann sé ekki sáttur með uppskeru sumarsins en liðið vann ekki bikar og verður ekki í Evrópukeppni á næsta ári en það gerðist síðast fyrir áratug.

„Ég er ekkert sáttur. Niðurstaðan er samt einfaldlega þannig að við unnum ekki nógu marga fótboltaleiki til að enda ofar. Metnaðurinn í Vesturbænum er þannig að þetta mun bara efla okkur til frekari dáða í framhaldinu,“ sagði Willum.

„Ég er sáttur með margt en það er ýmislegt sem þarf að vinna vel í. Það var svolítil deyfð yfir þessu. Það voru fáir áhorfendur og deyfð yfir mörgum leikjum. Ég held að það hafi haft mikil áhrif, ekki bara á gengi okkar KR-inga heldur bara fótboltann fyir höfuð. Mér finnst fótboltinn samt alltaf að verða betri og því langar mér að sjá áhugann aukast í takt við það,“ sagði Willum Þór Þórsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×