Íslenski boltinn

Ejub: Ein heiðarlegasta deild í heimi

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Ejub og félagar eiga enn möguleika á að bjarga sér frá falli.
Ejub og félagar eiga enn möguleika á að bjarga sér frá falli. vísir/stefán
„Mér fannst á tímapunkti í leiknum eins og við gætum alveg unnið þennan leik en kannski var maður full vongóður,“ sagði Ejub Purisevic, þjálfari Ólafsvíkinga, eftir jafnteflið við FH.

Ólafsvíkingar héldu FH í skefjum nær allann leikinn en FH náði á endanum að jafna úr vítaspyrnu. En átti þetta að vera víti?

„Ég sá þetta ekki vel. Ef þetta var víti þá var það mjög klaufalegt hjá mínum leikmanni að gera þetta. Ef þetta átti ekki að vera að víti þá væri það mjög sárt. Held að það sé best að segja sem minnst.“

Snemma í seinni hálfleik lentu Böðvari Böðvarssyni og Kwame Quee saman en sá síðarnefndi lá niðri er boltinn var úr leik eftir viðskipti hans við Böðvar. Böðvar fékk að líta gult spjald og var Ejub hissa á þeim dómi.

„Nei, í rauninni sá ég þetta ekki en ég var samt hissa að sjá Þorvald lyfta gulu spjaldi. Annaðhvort er þetta ekkert eða rautt spjald. Ef einhver sparkar eða kýlir annan þegar boltinn er úr leik þá á það að vera rautt. En ég sá þetta ekki.“

Víkingur Ó. verður að vinna gegn ÍA um næstu helgi og á sama tíma treysta á að KA taki stig af ÍBV til að halda sér uppi. Hann segist ekki efast um að KA komi til með að gefa allt í leikinn.

„Við spilum á Íslandi og það er ein heiðarlegasta deild sem til er. Allir reyna að vinna alla þannig á meðan það er tölfræðilegur möguleiki þá verðum við að fara á Skagann og gera okkar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×