Erlent

Kúrdum boðið að samningaborðinu í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Sýrlenskir Kúrdar í Raqqa, eftir að hafa rekið vígamenn ISIS þaðan.
Sýrlenskir Kúrdar í Raqqa, eftir að hafa rekið vígamenn ISIS þaðan. Vísir/AFP
Rússar hafa boðið sýrlenskum Kúrdum að samningaborðinu í Sýrlandi. Til stendur að halda viðræður á milli helstu fylkinga í Sýrlandi til að binda enda á átökin í landinu sem staðið hafa yfir í rúm sex ár. Framkvæmd viðræðnanna er að frumkvæði Rússa og hafa Tyrkir og Íranar, sem standa við bakið á fylkingum í landinu samþykkt viðræðurnar.

Til stendur að halda fund í Sochi þann 18. nóvember. Rússar hafa boðið forsvarsmönnum 33 fylkinga til viðræðnanna.

Þetta er í fyrsta sinn sem sýrlenskum Kúrdum er boðið að borðinu þrátt fyrir að þeir stjórni stórum hluta landsins. Það hefur ekki verið gert í fyrri viðræðum vegna óska Tyrklands sem líta á sýrlenska Kúrda sem hryðjuverkamenn.

Í samtali við Reuters segir embættismaður Kúrda að verið sé að skoða málið en þeir séu jákvæðir fyrir hugmyndinni.



Talsmaður uppreisnarhópa í Sýrlandi segir að þeir vilji að Sameinuðu þjóðirnar haldi utan um hinar fyrirhuguðu viðræður. Þá sagði hann hugmyndina vekja áhyggjur þar sem ekki lægi fyrir hvert markmið viðræðna væri og hverjir myndu taka þátt.

Fyrri viðræður á milli uppreisnarmanna og ríkisstjórnar Bashar al-Assad hafa engum árangri náð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×