Peter Madsen segir að sænska blaðakonan Kim Wall hafi látist af völdum kolmónoxíðeitrunar. Hann hafi í framhaldinu bútað niður líka hennar í kafbát sínum og komið fyrir í Köge flóa. Þetta kemur fram í tilkynningu dönsku lögreglunnar til fjölmiðla í dag.
Tilkynningin er send út vegna mikils áhuga fjölmiðla á málinu.
Madsen og lögmaður hans hafa ákveðið að una áframhaldandi gæsluvarðhaldi í málinu. Annars hefði farið fram réttarhald í málinu, þar sem krafa um varðhald hefði verið tekin fyrir. Þar hefðu nýjustu upplýsingar í málinu komið fram. Madsen verður í gæsluvarðhaldi til 15. nóvember.
Danski uppfinningamaðurinn segir, að sögn dönsku lögreglunnar, að Wall hafi orðið fyrir kolmónoxíðeitruninni á meðan hann var sjálfur uppi á dekki kafbátsins. Hann hafði áður gefið þá skýringu að Wall hefði látist eftir að hafa fengið um 70 kílóa þunga lúgu í höfuðið. Hann hefði varpað líkinu fyrir borð en þvertók fyrir að hafa sundurlimað það. Nú er frásögn hans önnur.
Ákæran á hendur Madsen hljóðaði áður upp á manndráp og ósæmilega meðferð á líki. Nú hefur bæst við ákæruliður sem snýr að kynferðisbroti, öðrum en kynmökum, og er vísað til fjórtán áverka eftir stungur í kringum kynfæri Wall. Áður hefur verið greint frá því að myndbönd sem sýndu aftöku kvenna hafi fundist í tölvu Madsen.
Aðalmeðferð í málinu er fyrirhuguð þann 8. mars.
Viðurkennir að hafa sundurlimað lík Wall en segir kolmónoxíðeitrun banameinið

Tengdar fréttir

Fundu höfuð Kim Wall
Fyrstu vísbendingar benda til að lýsing Peters Madsen á dauða blaðakonunnar eigi ekki við rök að styðjast.

Mál Kim Wall: Skoða hvort endurskapa eigi vettvanginn um borð í kafbátnum
Lögreglan í Danmörku er með það til athugunar hvort endurskapa eigi vettvanginn um borð í kafbáti Peter Madsen frá því þegar Kim Wall lést. Fyrst þurfi þó að afla frekari gagna svo að betri mynd verði til af atburðunum sem drógu Wall til dauða.

Mál Kim Wall: Fundu myndbönd af aftökum kvenna í tölvu Madsen
Peter Madsen var í dag úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana.