Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, biðlar til stjórnvalda Norður-Kóreu að setjast við samningaborðið og semja um að binda enda á kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunir sína. Hann sagðist vonast til þess að þurfa ekki að beita mætti Bandaríkjanna gegn Norður-Kóreu. Trump ræddi við blaðamenn í dag ásamt Moon Jea-in, forseta Suður-Kóreu.
Bæði Trump og Moon kölluðu eftir því að Kína og Rússland myndu beita þrýstingi á Norður-Kóreu svo hægt væri að fá þá til að láta af tilraunum sínum.
„Við getum ekki leyft Norður-Kóreu að ógna öllu því sem við höfum byggt,“ sagði Trump.
Trump er á ferðalagi um Asíu þar sem Norður-Kóreu og kjarnorkuvopn þeirra hafa valdið miklum áhyggjum. Bandaríkin eru með töluverðan viðbúnað í vesturhluta Kyrrahafsins en Trump sagði á næstu dögum myndu þrjú flugmóðurskip, tundurspillar og kafbátar stunda heræfingar á svæðinu.
Um er að ræða flugmóðurskipin USS Nimitz, USS Ronald Reagan og USS Theodore Roosevelt og munu þau taka þátt í sameiginlegum æfingum Bandaríkjanna, Suður-Kóreu og Ástralíu.
Embættismenn í Norður-Kóreu, sögðu blaðamanni CNN, að aðgerðir Bandaríkjanna gætu leitt til stríðs.