Gríðarlega mikil endurnýjun hefur orðið á Alþingi undanfarin áratug enda er búið að kjósa fimm sinnum til þings frá árinu 2007. Þetta þýðir að mjög fáir þingmenn hafa langa þingreynslu en 47 þingmenn hafa setið á þingi í fjögur ár eða skemur.
Hér sjáum við dreifinguna á þingreynslu þeirra sem nú eiga sæti á Alþingi, lengst til vinstri eru þau sem minnstu reynsluna hafa en lengst til hægri þau sem setið hafa lengst á þingi.
Aðeins fjórtán þingmenn hafa setið í átta ár, tvö hefðbundin kjörtímabil, eða lengur á Alþingi. Allra lengst hefur Steingrímur J. Sigfússon gengt þingmennsku eða í 34 ár. Þar á eftir kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem þó er tæplega hálfdrættingur miðað við Steingrím, með fimmtán ára reynslu.

Hálfur milljarður í biðlaun
Ásmundur Einar Daðason hefur setið í sjö ár á þingi og Ágúst Ólafur Ágústdsson í sex ár en 47 þingmenn hafa aftur á móti setið á þingi í fjögur ár eða skemur.

Eftir kosningarnar 2009 fóru 27 þingmenn á biðlaun sem kostuðu Alþingi um 91 milljón, eftir kosningarnar 2013 fóru einnig 27 þingmenn á biðlaun sem kostaði rúmar 88 milljónir, eftir kosningarnar árið 2016 hættu hins vegar 32 þingmenn og fengu samanlagt biðlaun upp á rúmar 200 milljónir króna.
Að loknum kosningum fyrir viku féllu eða hættu 19 þingmenn og áætlar skrifstofa Alþingis að kostnaður við biðlaun þeirra verði 117 milljónir. Á síðustu átta árum hafa því 105 þingmenn hætt eða fallið af þingi og fengið samanlagt rúmar 497 milljónir króna í biðlaun.