Innlent

Borgarbúar biðu í allt að fjóra tíma í röð eftir dekkjaskiptum í dag

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Borgarbúar vöknuðu við fannhvíta jörð í morgun og er ekki víst að allir hafi komist út úr bílastæðinu sínu. Snjómokstursmenn Reykjavíkurborgar voru í startholunum til að létta okkur hinum lífið og hófu mokstur klukkan fjögur í nótt í þessu fyrsta útkalli vetrarins út af snjó. 

Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri á umhverfis-og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, segir nokkuð ástand hafa skapast á götunum enda margir líklega enn á sumardekkjum.

„Ég held að fólk hafi verið að draga það að setja vetrardekkin undir. Ég hvet fólk til að setja vetrardekkin undir. Það er kominn nóvember og allra veðra von og því gott að fara á dekkjaverkstæðið og skipta um dekk,” segir Hjalti og það gerðu borgarbúar í dag. Það mynduðust langar raðir fyrir utan dekkjaverkstæðin, að minnsta kosti tuttugu bílar í röð og allt að fjögurra tíma bið.

Starfsmennirnir á dekkjaverkstæðinu Bílkó voru að minnsta kosti á þönum í allan dag.

„Við opnuðum á slaginu átta og bílarnir mættir klukkan sjö. Við förum örugglega ekkert heim í dag,” segir Tómas Pétursson, starfsmaður á Bílkó.

Fréttamaður tók tali við nokkra í röðinni eins og sjá má í spilaranum hér að ofan. Fólk nýtti tímann til að taka til í hanskahólfinu eða gera nokkrar núvitundaræfingar. Aðrir voru ekki alveg jafn hressir og bölvuðu trassaskapnum í sér.


Tengdar fréttir

Snjórinn kominn til að vera í bili

Fyrsti snjór vetrarins féll á höfuðborgarsvæðinu í gær og mun hann lifa eitthvað áfram samkvæmt veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×