Innlent

Fimmti hver deyr í bið inni á Landspítalanum

Sveinn Arnarsson skrifar
Það eru of margir sem bíða á spítalanum og komast ekki út.
Það eru of margir sem bíða á spítalanum og komast ekki út. vísir/eyþór
Eitt hundrað ný hjúkrunarrými á Landspítalanum færu langt með að leysa vanda Landspítalans að mati Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis bráðadeildar spítalans. Um eitt hundrað aldraðir einstaklingar bíða inni á spítalanum með færni- og heilsumat. Fimmtungur þeirra deyr á spítalanum áður en þeir komast á öldrunarheimili.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar LSH.vísir/anton brink
„Skortur á dvalarrýmum er meinið sem skemmir svo mikið út frá sér. Þar liggur vandinn sem spítalinn glímir við fyrst og fremst,“ segir Jón Magnús. „Skorturinn hefur áhrif á biðtíma sjúklinga eftir sérhæfðri meðferð, áhrif á tímann þar til sjúklingur er kominn á viðeigandi sjúkradeild, og hefur áhrif á legutíma allra sjúklinga. Einnig ef þessi vandi yrði leystur yrði álag á hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða mun minna og auðveldaði þeim stéttum öll störf.“

Nýtt þing þarf að koma saman innan skamms til að vinna að fjárlagagerð næsta árs. Vísir að samstöðu um breytingar til að fjölga öldrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu hefur myndast. 

„Það er alveg rétt að það þarf að að hjóla í þetta. Ný ríkisstjórn verður að taka á þessum málum. Við unnum að þessu í velferðarnefnd og ég veit af vinnu í ráðuneytinu um að fjölga hjúkrunarrýmum,“ segir Nicole Leigh Mosty, fyrrverandi formaður velferðarnefndar þingsins. „Þetta er bráðnauðsynlegt fyrir þjóðina í heild. Það skiptir máli að setja fjármagn þangað sem peninga er virkilega þörf og það er í þessu tilviki í fjölgun öldrunarrýma. “

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir að fimmtungur þeirra sem liggi á LSH og bíði eftir hjúkrunarrými andist áður en þeir komist inn á öldrunarheimili. „Þetta er fyrirhyggjuleysi síðustu ára sem við erum að fást við. Það hefur einfaldlega ekki verið byggt nægilega af rýmum fyrir þetta fólk. Einnig mun öldruðum fjölga mikið á næstu árum og því þurfum við átak í þessum málaflokki. Þessi einstaka aðgerð myndi leysa mörg vandamál á LSH,“ segir Anna Sigrún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×