Guðjón Helgason hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Isavia. Guðjón tekur við starfinu af Guðna Sigurðssyni sem gengt hefur starfinu frá því í maí 2015, en hann hefur ákveðið að hefja nám í háskóla erlendis á næstunni.
Í tilkynningu frá ISAVIA segir að Guðjón hafi starfað sem samskiptastjóri Öryrkjabandalags Íslands frá 2016 en hann var áður fréttamaður um langt skeið.
„Hann hóf störf á Fréttastofu Ríkisútvarpsins sumarið 2002 og starfaði þar með hléum til ársloka 2004. Þá tók hann við starfi kynningar- og alþjóðafulltrúa hjá Kennaraháskóla Íslands. Í byrjun árs 2006 tók hann til starfa sem fréttamaður hjá 365 miðlum og vann þá á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi.is. Í september 2009 hóf hann störf sem fréttamaður í erlendum fréttum á sameinaðri fréttastofu RÚV. Guðjón starfaði einnig um skeið sem fréttaritari á Íslandi fyrir alþjóðlegu fréttaveituna Associated Press. Guðjón lauk BA námi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2002 og meistaranámi í alþjóðasamskiptum frá Háskólanum í Essex á Englandi 2005,“ segir í tilkynningunni.
Guðjón nýr upplýsingafulltrúi ISAVIA
