Fótbolti

Sigraðist tvisvar á krabbameini og er búinn að spila 100 leiki í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Francesco Acerbi hefur ekki misst af leik í rúm tvö ár.
Francesco Acerbi hefur ekki misst af leik í rúm tvö ár. vísir/getty
Francesco Acerbi, leikmaður Sassuolo í ítölsku úrvalsdeildinni, lék sinn 100. leik í röð fyrir félagið um helgina. Það er enn merkilegra fyrir þær sakir að Acerbi hefur tvívegis greinst með krabbamein.

Acerbi, sem er 29 ára, greindist með eistnakrabbamein sumarið 2013, skömmu eftir að hann gekk í raðir Sassuolo. Hann fór undir hnífinn og æxlið var fjarlægt.

Acerbi greindist aftur með krabbamein í kjölfar þess að hann féll á lyfjaprófi í desember 2013. Hann gekkst þá undir lyfjameðferð og í mars 2014 greindi hann frá því að hann væri orðinn einkennalaus.

Acerbi sneri aftur á völlinn í september 2014 og hefur síðan þá verið fastamaður í liði Sassuolo.

Hann hefur nú leikið allar 90 mínúturnar í 100 leikjum í röð, eða alla leiki Sassuolo í rúm tvö ár.

„Ég vildi ekki hætta að spila. Þetta er mín ástríða. Eftir veikindin rann það upp fyrir mér að ég hefði ekki tíma fyrir eftirsjá,“ sagði Acerbi eftir 1-0 sigur Sassuolo á Sampdoria í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×