Seðlabankastjóri: Búum við þá blessun að vera ekki með "óheyrilega lága vexti“ Hörður Ægisson skrifar 13. desember 2017 07:00 Síðast þegar við vorum með slíkt vaxtastig, um miðjan tíunda áratuginn, var slaki í hagkerfinu. Það eru því að verða hérna feikilega miklar breytingar, segir Már. Vísir/Stefán Svigrúm til að lækka eiginfjárhlutföll stóru viðskiptabankanna er minna en af hefur verið látið í umræðunni. Íslensku bankarnir þurfa að vera með há eiginfjárhlutföll þannig að þeir geti staðið af sér stór högg og þar á ekki að bera okkur saman við evrópska bankakerfið enda hafi það verið undirfjármagnað um langt skeið. Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri en hann bendir á að Ísland sé að upplifa „feikilega miklar breytingar“ þegar kemur að vaxtastiginu þar sem langtímavextir séu í sögulegu lágmarki á sama tíma og það hefur verið mikil uppsveifla í efnahagslífinu. Það sé „algjörlega raunhæft“ að langtímaraunvextir haldi áfram að lækka en hins vegar búi Íslendingar sem „betur fer við [þá] blessun“ að vera ekki með jafn „óheyrilega lága“ vexti og verið hafa í helstu viðskiptalöndum okkar síðustu ár. Í viðtali við Markaðinn, sem var tekið 29. nóvember síðastliðinn, daginn áður en ný ríkisstjórn tók formlega til starfa, hafnaði Már þeirri gagnrýni að innflæðishöftin í núverandi mynd valdi því að vextir til heimila og fyrirtækja séu hærri en ella. Forsendur ættu samt að skapast á „komandi misserum“ til að slaka á höftunum þegar vaxtamunur Íslands við útlönd minnkar.Verðbólga hefur mælst undir markmiði Seðlabankans í næstum fjögur ár og án húsnæðis þá hefur jafnvel verið meiri verðhjöðnun hér á landi en í mörgum nágrannaríkjum. Þið hafið talið um að sígandi lukka sé best en má ekki segja að hún gangi ansi hægt fyrir sig og að peningastefnunefndin hafi verið á eftir kúrfunni þegar kemur að vaxtalækkunum? „Nei, það held ég ekki. Lukkan felst í efnahagslegum stöðugleika og staðan í okkar hagkerfi er einfaldlega sú að við höfum verið með nýmarkaðshagvöxt og þess vegna hefur það verið réttlætanlegt að fara varlega í vaxtalækkunarferlið – jafnvel þótt verðbólgan hafi verið undir markmiði lengur en ella. Það hefði verið óvarlegt ef við hefðum horft fram hjá hagsveiflunni og aðeins einblínt á verðbólguna. Það gleymist stundum að peningastefnan er ekki bara einhver verkfræði heldur ekki síður áhættustjórnun. Og í dag felst sú áhætta í mögulegri ofhitnun hagkerfisins.“ Már segir að það „skipti ekki máli“ hver verðbólgan sé án húsnæðisliðarins. „Hann er hluti af okkar verðbólgumarkmiði. Þannig var það ákveðið í samkomulaginu sem við gerðum við ríkisstjórnina í mars 2001 sem fékk síðan skýra lagastoð í maí sama ár. Það samkomulag er enn í gildi. Allar ríkisstjórnir frá þeim tíma hafa haft tækifæri til að hefja viðræður við Seðlabankann um endurskoðun þess samkomulags en engin hefur hins vegar enn séð ástæðu til að gera það.“Vextir í sögulegu lágmarki Það var eftir því tekið á fundi Viðskiptaráðs um miðjan síðasta mánuð þegar Már sagði kollega sína á Norðurlöndunum „krjúpa á kné og biðja til Guðs um að geta verið með íslenskt vaxtastig“. Með öðrum orðum að Ísland væri öfundsvert af vaxtastiginu. Spurður út í þessi ummæli segir Már að hann hafi verið að vekja athygli á því að vextir í okkar helstu viðskiptalöndum – Bandaríkjunum og evrusvæðinu – hafa um langt skeið verið í sögulegu lágmarki. „Þetta hefur verið talið nauðsynlegt til að örva eftirspurn af því að öfugt við okkur á Íslandi þá hafa þessi ríki búið við lítinn hagvöxt og mikinn slaka. Menn hafa hins vegar haft vaxandi áhyggjur af þeim neikvæðu hliðarverkunum sem þessir lágu vextir geta haft á fjármálastöðugleika. Heimilin skuldsetji sig of mikið samhliða hækkandi fasteignaverði og þegar vextir fara að hækka á ný, sem mun að lokum gerast, þá geti þau mörg hver lent í greiðsluerfiðleikum. Við sjáum að þetta er að gerast í löndum eins og Svíþjóð þar sem húsnæðisverð hefur þar til nýlega hækkað mikið og heimilin eru verulega skuldsett.“En þar hefur seðlabankinn samt ekki verið að bregðast við með hærri vöxtum en ella eins og peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur gert? „Seðlabankinn þar í landi telur, réttilega að mínu viti, að það yrði erfitt fyrir að Svíþjóð að vera með mikinn vaxtamun gagnvart evrusvæðinu. Það myndi strax brjótast út í mikilli hækkun gengisins. Öfugt við okkur þá hefur vandamál þeirra einkum verið hættan á því að verðbólguvæntingar myndu festast umtalsvert undir markmiði seðlabankans. Á fundum sem ég sæki með seðlabankastjórum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og Evrópska kerfisáhætturáðinu stendur upp úr að allir hafa miklar áhyggjur af þessum lágu vöxtum og þeirri áhættu sem þeir skapa fyrir fjármálastöðugleika. Ef menn komast þess vegna undan því að vera með svona óheyrilega lága vexti þá er það bara blessun. Og við búum sem betur fer við þessa blessun,“ segir Már.Þrátt fyrir að vextir séu talsvert hærri hér á landi en í helstu viðskiptalöndum okkar þá eru þeir engu að síður, útskýrir seðlabankastjóri, um þessar mundir lítillega lægri en sögulegt meðaltal seðlabankavaxta í Bandaríkjunum og Bretlandi frá því á 19. öld og til dagsins í dag. „Auðvitað er það þannig að vextir á Íslandi eru í sögulegu lágmarki þegar litið er til langtímavaxta og vaxta á verðtryggðum fasteignalánum. Það hafa áður verið lægri skammtímavextir en ekki þegar við erum á þessu stigi hagsveiflunnar. Síðast þegar við vorum með slíkt vaxtastig, um miðjan tíunda áratuginn, var slaki í hagkerfinu. Það eru því að verða hérna feikilega miklar breytingar.“ Már segir að þarna spili meðal annars inn í sú kerfisbreyting sem hefur orðið á grunngerð hagkerfisins, ekki síst með vexti ferðaþjónustunnar, og eins þær umbætur sem gerðar hafa verið á peningastefnunni. „Sjálfstæði peningastefnunnar jókst eftir að peningastefnunefndin var sett á fót árið 2009 og hún er núna mótuð eftir miklu ítarlegra ferli en áður. Smám saman hefur það síast inn í kollinn á fólki að nefndin stefnir að 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði og hún meinar það! Þetta hefur hjálpað til, vissulega ásamt fjármagnshöftunum, og eins sú staðreynd að hið sveigjanlega gengi krónunnar virkar betur og er núna í meiri mæli sveiflujafnandi.“Með þessari kerfisbreytingu á hagkerfinu, sem endurspeglast í miklum viðskiptaafgangi og umskiptum á erlendri stöðu þjóðarbúsins, telurðu þá raunhæft að Ísland verði smám saman lágvaxtaland? „Hvað er lágvaxtaland er alltaf skilgreiningaratriði og sumum finnst það ekkert vera lágvaxtarland nema vextir séu núll prósent. En já, mér finnst það algjörlega raunhæft að langtímaraunvextir haldi áfram að lækka. Hvort sú verður reyndin fer hins vegar eftir því hvað gerist næst. Ef viðskiptaafgangurinn helst sambærilegur, sem mun þýða að erlend eignastaða þjóðarbúsins batnar enn frekar, og sparnaðarhneigð heimila og fyrirtækja heldur áfram í sama mæli þá mun það toga niður raunvextina. Hversu mikið og hratt það gerist á eftir að koma í ljós.“"Fjárfestar og bankamenn, ekki hvað síst í fjárfestingabankastarfsemi, vilja auðvitað yfirleitt að bankarnir séu með lægri eiginfjárhlutföll,“ segir Már.Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur umbylt íslenska hagkerfinu og hefur verið einn helsti drifkraftur hagvaxtar á undanförnum árum. Ljóst er að allar spár um hagvaxtarhorfur á komandi árum ráðast mjög af gengi þeirrar atvinnugreinar sem skapar nú orðið um helmingi meiri gjaldeyri á hverju ári en áliðnaðurinn og sjávarútvegur samanlagt.„Ekki einhver gullkista“Á það hefur verið bent að flugfélögin Icelandair og WOW air, sem standa undir meira en 80 prósentum af framboði á flugi til og frá landinu, séu þess vegna kannski í svipaðri stöðu og bankarnir fyrir 2008 – of kerfislega mikilvæg til að mega falla. Gæti mögulegt gjaldþrot annars þessara félaga skapað mikla áhættu fyrir fjármálastöðugleika og er þetta eitthvað sem Seðlabankinn hefur sérstaklega skoðað? „Það fer mikið eftir ástæðu gjaldþrotsins og hvað tekur síðan við. Munurinn á banka og flugfélagi er að það er hægt að gera áhlaup á banka. Þegar flugfélag fer í greiðsluþrot eru afleiðingarnar að þeir sem hafa sett fé sitt í reksturinn tapa því og félagið er í kjölfarið annaðhvort endurskipulagt eða tekið yfir af öðru flugfélagi. Það sem skiptir máli varðandi stöðuna í ferðaþjónustu er framboðið á flugi til og frá landinu og þá skiptir ekki höfuðmáli hvort það er borið uppi af íslensku eða erlendu flugfélagi. Ef það er þannig að gjaldþrot flugfélags verður vegna þess að það er að draga úr eftirspurn eftir ferðum til Íslands þá mun það jafnframt þýða í senn minni vöxt í ferðaþjónustu og minni hagvöxt. Samkvæmt áfallsprófi sem við höfum gert og gerir ráð fyrir að ferðaþjónustan yrði fyrir miklu höggi, þar sem allur vöxtur síðustu þriggja ára myndi ganga til baka, þá er augljóst mál að hagvöxtur minnkaði mikið, gengið myndi gefa eftir og verðbólgan aukast. En jafnvel við svona mikið áfall þá er eigið fé bankanna nægjanlegt til að standa það af sér og það yrði ekkert kerfishrun heldur aðlögun að nýju jafnvægi.“Nú hefur einmitt mikið verið rætt um bankakerfið að undanförnu, meðal annars í aðdraganda nýafstaðinna kosninga, og ný ríkisstjórn hyggst vinna svonefnda hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi. Telur þú einhverju ólokið í endurskipulagningu fjármálakerfisins? „Ég held að það geti verið ákaflega gagnlegt að fara yfir hvar við stöndum varðandi fjármálakerfið í dag, hvernig við viljum hafa það til frambúðar og hvernig við getum komist þangað. Í mínum huga er þetta eitthvað sem er mikilvægara en hvort vextir séu 25 punktum lægri eða hærri. Þannig að ég fagna því í sjálfu sér ef til stendur að fara í slíka vinnu. Það verður engu að síður að hafa í huga við þá endurskoðun að það má þá ekki ræða viðfangsefnið eins og fjármálakerfið í dag sé hið sama og fyrir fjármálakreppuna.“Finnst þér oft skorta skilning á þessu í umræðunni? „Já, mér þykir það. Eiginfjárstaða bankanna er mjög góð, það er engin stór áhætta í efnahagsreikningum og það er búið að hreinsa upp stóran hluta vandræðalána. Þá hefur eftirlit og regluverk um starfsemi bankanna verið stórbætt, meðal annars með tilkomu fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar, og það er jafnframt verið að innleiða fjölmörg þjóðhagsvarúðartæki. Áhættan í fjármálakerfinu í dag er því miklu minni en nokkru sinni áður.“Að mati Más eru áskoranirnar varðandi fjármálakerfið að koma úr allt annarri átt en var fyrir bankahrun. „Í fyrsta lagi gætu breytingar á samkeppnisumhverfinu, með uppgangi fjártæknifyrirtækja (e. fintech), grafið undan viðskiptalíkani bankanna enda þótt í þeim felist einnig tækifæri. Þá er ljóst að kostnaður við stafrænan rekstur og tölvukerfi íslensku bankanna er mjög hár og mun fara vaxandi. Þar mætti skoða leiðir til hagræðingar með því að sameina ýmsa innviði. Í þriðja lagi stafar fjármálakerfinu vaxandi ógn af netárásum og það getur aukið kostnað þess enn frekar að reyna að verjast þeim. Að lokum er verið að innleiða nýtt regluverk frá Evrópusambandinu sem mun stórauka kvaðir á bankana hvað varðar meðal annars persónuvernd og gagnaöryggi.“ Hann segir að það sé því mikill misskilningur, eins og stundum sé af látið, að „fjármálakerfið sé einhver gullkista sem geti leyst hvers manns vanda. Það er auðvitað ekki þannig enda þótt það kunni að vera eitthvert svigrúm til að lækka eiginfjárhlutföll bankanna. Ég held að það sé hins vegar minna en margur heldur.“Svigrúmið minna en af er látiðNú vilja nánast allir stjórnamálaflokkar lækka verulega eigið fé bankana, með sérstökum arðgreiðslum til ríkissjóðs. Er þar verið að tala um hærri fjárhæðir heldur en er raunhæft að þínu mati? „Já, ég held það. Það er ýmis áhætta, bæði fyrirséð og ófyrirséð, sem getur komið upp og bankakerfi okkar þarf að vera með eiginfjárhlutföll sem geta staðið af sér stór högg. Við eigum í þeim efnum ekki alltaf að vera að bera okkur saman við evrópska bankakerfið sem hefur verið undirfjármagnað um langt skeið. Fjárfestar og bankamenn, ekki hvað síst í fjárfestingabankastarfsemi, vilja auðvitað yfirleitt að bankarnir séu með lægri eiginfjárhlutföll þannig að þeir geti sýnt hærri ávöxtun á eigið fé en ella enda þótt hagnaðurinn sé að sama skapi ekkert mikill borið saman við stærð efnahagsreikningsins. Þá geta þeir sagt: sjáið hvað við erum miklir töframenn og farið fram á háa bónusa en afleiðingin er sú að bankarnir eru að lokum holaðir að innan. Það er vissulega eitthvert svigrúm í bönkunum í dag til að lækka eigið fé þeirra en það er ekki eins mikið og stundum er af látið.“Það hafa sumir haft áhyggjur af því að slík skammtímasjónarmið muni ráða för eftir að vogunarsjóðir og Goldman Sachs eignuðust 30 prósenta hlut í Arion banka og hafa talað fyrir því að stjórnvöld reyni að nýta sér mögulegan forkaupsrétt að bankanum. Telurðu heppilegt að ríkið eignist þriðja bankann? „Það er ekki eitthvað sem ég er að hvetja til. Hvað varðar söluferli Arion banka og mögulega aðkomu stjórnvalda þá þurfum við auðvitað að passa upp á að allt það ferli verði í samræmi við þá samninga sem lagt var upp með milli Kaupþings og íslenska ríkisins í tengslum við nauðasamninga slitabúsins. Þá þarf þetta að gerast með þeim hætti að traust á bankakerfinu sé varðveitt, líka út á við. Auðvitað er það ekki æskileg staða, nema í skamman tíma, að ríkið sé með alla áhættuna af bankakerfinu hjá sér beint. Við bankahrunið 2008 sögðum við alltaf – og það var okkar helsta vörn – að þetta væru einkabankar sem ríkið bæri ekki ábyrgð á og þar af leiðandi væri ekki hægt að ætlast til þess að íslenska ríkið myndi stíga þar inn í og ábyrgjast efnahagsreikning þeirra. Það hefði sett ríkið á hausinn.“Kallaði á stærri gjaldeyrisforða Í júní 2016 voru sett á innflæðishöft, eða svokallað fjárstreymistæki, í því skyni að stemma stigu við ört vaxandi innflæði fjármagns sem verið hafði mánuðina á undan. Erlendir aðilar sem ætla að fjárfesta í skuldabréfum hér á landi þurfa þannig að binda 40 prósent af fjárfestingunni á vaxtalausum reikningum í eitt ár. Aðspurður segir Már að hann telji að fjárstreymistækið hafi skilað þeim árangri sem lagt var upp með. „Markmiðið með því var að draga úr hvatanum til vaxtamunarviðskipta á meðan vaxtamunurinn væri svona mikill. Áætlunin um losun hafta sem var kynnt sumarið 2015 þótti trúverðug og lánshæfiseinkunn ríkisins hækkaði. Ísland varð áhugaverðari fjárfestingakostur á sama tíma og vaxtamunur við útlönd var enn mikill, og í kjölfarið kom mikið fjármagnsinnstreymi sem truflaði verulega virkni peningastefnunnar í gegnum vaxtafarveginn. Það gjörbreyttist eftir að við innleiddum fjárstreymistækið og vextir á skuldabréfamarkaði hafa síðan fylgt vaxtabreytingum Seðlabankans betur en áður.“En nú hefur vaxtamunurinn við útlönd verið að minnka, verðbólguhorfur batnað og útlit er fyrir minni hagvöxt. Heldurðu við þessar aðstæður að við munum sjá stóraukið fjármagnsinnflæði í ríkisskuldabréf ef slakað yrði á bindiskyldunni? „Það er alveg hugsanlegt. Af því að vaxtamunurinn er þrátt fyrir allt enn verulegur. Og af hverju ættum við að gera það þegar ávinningur okkar af slíku fjármagnsinnstreymi er um þessar mundir líklega neikvæður?“Hvernig færðu það út? „Af því að eftirspurn ríkissjóðs eftir erlendu lánsfé er mjög lítil í sögulegu samhengi og hann þarf því í reynd ekki á þessu fjármagni að halda. Væri sérstaka bindiskyldan ekki til staðar þyrfti Seðlabankinn væntanlega að halda úti enn stærri gjaldeyrisforða en ella til að draga úr áhættu tengdri vaxtamunarinnflæði og mögulegu snöggu útflæði. Þótt erlendir fjárfestar séu að kaupa löng skuldabréf þá er eftir sem áður um að ræða vel seljanleg verðbréf sem þeir geta alltaf selt á hverjum tíma, farið með söluandvirðið úr landi og þannig gengið á forða Seðlabankans. Það fylgir því töluverður kostnaður að viðhalda stórum forða enda er ávöxtun hans á alþjóðlegum mörkuðum óvenju lítil. Á sama tíma er vænt ávöxtun erlendra fjárfesta af kaupum á íslenskum ríkisskuldabréfum ágæt og áhættuleiðréttur vaxtamunur er meiri eftir því sem sveiflur í gengi krónunnar eru minni. Til að draga úr honum þyrfti Seðlabankinn því að leyfa auknar gengissveiflur sem um leið eykur áhættu innlendra aðila. Af þessum sökum má færa rök fyrir því að hreinn ávinningur þjóðarbúsins af slíku innflæði sé um þessar mundir neikvæður.“Sérfræðingar á fjármálamarkaði hafa hins vegar sagt innflæðishöftin á kostnað heimila og fyrirtækja þar sem þau hafi valdið því að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi ekki skilað sér að fullu til þeirra á síðustu misserum. „Það sýnir sig ekki í okkar gögnum. Við megum ekki gleyma því að Seðlabankinn horfir á þessi mál út frá almannahagsmunum. Það eru auðvitað ýmsir á fjármálamarkaði sem hafa mikla hagsmuni af því að örva þessi vaxtamunarviðskipti. Þeir ætla sér að fá þóknanatekjur af innflæðinu og eins þegar fjármagnið leitar aftur úr landi. Það er fullkomlega eðlilegt og ekkert að því að þeir geri það“. Már segir það engu að síður vera markmið Seðlabankans að fjárstreymistækið sé almennt ekki virkt. „Við viljum eiga möguleika á því að geta beitt tækinu þegar sérstakar aðstæður skapast en almennt séð er best að við þurfum ekki að nota það. Við teljum hins vegar rétt um þessar mundir að draga úr beitingu þess í skrefum enda horfur á að spennan í þjóðarbúskapnum sé að minnka og slakinn í viðskiptalöndum okkar að minnka. Vaxtamunur við útlönd ætti því að óbreyttu að minnka á næstu misserum og þannig skapast forsendur til að lækka bindiskylduna. Og við munum gera það.“"Þá geta þeir sagt: sjáið hvað við erum miklir töframenn og farið fram á háa bónusa en afleiðingin er sú að bankarnir eru að lokum holaðir að innan," segir seðlabankastjóri.vísir/stefánEkki „nægjanlega mikla“ yfirsýn Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að styrkja þurfi löggjöf og regluverk um fjármálakerfið og eins að tryggja betur sjálfstæði eftirlitsstofnana. Ein leið í þeim efnum, sem AGS hefur talað fyrir, er að sameina allt eftirlit með bankakerfinu undir hatti Seðlabankans. Þegar Már er spurður út í þær tillögur útskýrir hann að samkvæmt þeim yrði FME áfram til sem stofnun en það sem lýtur að varúðar- og eindareftirliti með bönkunum yrði tekið úr stofnuninni og flutt yfir til Seðlabankans. „Það má ekki gleyma því að í dag er staðan þannig, öfugt við það sem er í flestum öðrum löndum sem við berum okkur saman við, að reglusetningarvald hvað varðar lausa- og eiginfjárkröfur fjármálastofnana er sitt í hvorri stofnuninni. Það er ekki víst að þetta sé besta fyrirkomulagið. Reynslan sýnir að seðlabankar, sem lánveitendur til þrautavara og lausafjárfyrirgreiðendur, verða að hafa mjög glöggar upplýsingar um hver staða bankanna er þannig að þeir séu ekki að lána til þeirra sem eru ekki gjaldfærir. Þeir þurfa á hverjum tíma að hafa góðar upplýsingar um veðin sem bankarnir geta boðið fram þannig að ekki sé verið á úrslitastundu að taka ónýt veð fyrir neyðarlánum.“Er bankinn með þá yfirsýn í dag? „Kannski ekki nægjanlega mikla. Ég held að það yrði betur tryggt með nánara samstarfi milli Seðlabankans og FME. En þá eru ýmsir á þeirri skoðun, meðal annars vinir okkar í FME, að það geti verið óhagkvæmt fyrir jafn lítið land og Ísland að rjúfa fjármálaeftirlitið svona í sundur eins og felst í tillögu AGS. Þá koma auðvitað aðrar leiðir líka til álita.“Viðtalið birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. Efnahagsmál Mest lesið Biden stöðvar japanska yfirtöku á US Steel Viðskipti erlent Blöskrar 14 prósent verðhækkun tryggingarfélags Viðskipti innlent Sorpa undirbýr sig fyrir þjónustufall Neytendur Strætómiðinn dýrari Neytendur Mannauðsmál: „Enn of mikil tilhneiging til að taka ekki á málum“ Atvinnulíf „Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“ Atvinnulíf Ummæli stjórnarmanns Eflingar um sníkjudýr „til skammar“ Viðskipti innlent Vigdís frá Play til Nettó Viðskipti innlent Næstum allir nýir bílar í Noregi rafmagnsbílar Viðskipti erlent Sjónvarpskóngur allur Viðskipti erlent Fleiri fréttir Blöskrar 14 prósent verðhækkun tryggingarfélags Ummæli stjórnarmanns Eflingar um sníkjudýr „til skammar“ Vigdís frá Play til Nettó Gjafabréf og alls konar flatbökudótarí vinsælar jólagjafir í ár Innkalla nagstangir sem hundar veikjast af Nýskráning fólksbíla dróst saman um rúm fjörutíu prósent Kaupsamningar nærri helmingi fleiri en í fyrra Verkalýðshreyfingin sé stærsta ógnin við starfsöryggi á veitingastöðum Slippurinn allur að sumri loknu „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Raforka til gagnavera snarminnkað Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise Discover hefur flug milli München og Íslands Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Hluthafarnir samþykkja samruna Marels við JBT Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Elma Sif til Stika Solutions Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Vonar að allir pakkar berist til þeirra fyrir jól Kortleggja tómar íbúðir í samstarfi við sveitarfélög Jóna Björk tekur við Garðheimum Segja son og tengdadóttur Reynis ekki koma nálægt Mannlífskaupum EastJet flýgur til Basel og Lyon Margrét áfram rektor á Bifröst Ingibjörg Þórdís til Elko Fimm mætt í Kauphöllina RÚV sker sér stærri sneið af auglýsingakökunni Ársverðbólga óbreytt á milli mánaða Sjá meira
Svigrúm til að lækka eiginfjárhlutföll stóru viðskiptabankanna er minna en af hefur verið látið í umræðunni. Íslensku bankarnir þurfa að vera með há eiginfjárhlutföll þannig að þeir geti staðið af sér stór högg og þar á ekki að bera okkur saman við evrópska bankakerfið enda hafi það verið undirfjármagnað um langt skeið. Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri en hann bendir á að Ísland sé að upplifa „feikilega miklar breytingar“ þegar kemur að vaxtastiginu þar sem langtímavextir séu í sögulegu lágmarki á sama tíma og það hefur verið mikil uppsveifla í efnahagslífinu. Það sé „algjörlega raunhæft“ að langtímaraunvextir haldi áfram að lækka en hins vegar búi Íslendingar sem „betur fer við [þá] blessun“ að vera ekki með jafn „óheyrilega lága“ vexti og verið hafa í helstu viðskiptalöndum okkar síðustu ár. Í viðtali við Markaðinn, sem var tekið 29. nóvember síðastliðinn, daginn áður en ný ríkisstjórn tók formlega til starfa, hafnaði Már þeirri gagnrýni að innflæðishöftin í núverandi mynd valdi því að vextir til heimila og fyrirtækja séu hærri en ella. Forsendur ættu samt að skapast á „komandi misserum“ til að slaka á höftunum þegar vaxtamunur Íslands við útlönd minnkar.Verðbólga hefur mælst undir markmiði Seðlabankans í næstum fjögur ár og án húsnæðis þá hefur jafnvel verið meiri verðhjöðnun hér á landi en í mörgum nágrannaríkjum. Þið hafið talið um að sígandi lukka sé best en má ekki segja að hún gangi ansi hægt fyrir sig og að peningastefnunefndin hafi verið á eftir kúrfunni þegar kemur að vaxtalækkunum? „Nei, það held ég ekki. Lukkan felst í efnahagslegum stöðugleika og staðan í okkar hagkerfi er einfaldlega sú að við höfum verið með nýmarkaðshagvöxt og þess vegna hefur það verið réttlætanlegt að fara varlega í vaxtalækkunarferlið – jafnvel þótt verðbólgan hafi verið undir markmiði lengur en ella. Það hefði verið óvarlegt ef við hefðum horft fram hjá hagsveiflunni og aðeins einblínt á verðbólguna. Það gleymist stundum að peningastefnan er ekki bara einhver verkfræði heldur ekki síður áhættustjórnun. Og í dag felst sú áhætta í mögulegri ofhitnun hagkerfisins.“ Már segir að það „skipti ekki máli“ hver verðbólgan sé án húsnæðisliðarins. „Hann er hluti af okkar verðbólgumarkmiði. Þannig var það ákveðið í samkomulaginu sem við gerðum við ríkisstjórnina í mars 2001 sem fékk síðan skýra lagastoð í maí sama ár. Það samkomulag er enn í gildi. Allar ríkisstjórnir frá þeim tíma hafa haft tækifæri til að hefja viðræður við Seðlabankann um endurskoðun þess samkomulags en engin hefur hins vegar enn séð ástæðu til að gera það.“Vextir í sögulegu lágmarki Það var eftir því tekið á fundi Viðskiptaráðs um miðjan síðasta mánuð þegar Már sagði kollega sína á Norðurlöndunum „krjúpa á kné og biðja til Guðs um að geta verið með íslenskt vaxtastig“. Með öðrum orðum að Ísland væri öfundsvert af vaxtastiginu. Spurður út í þessi ummæli segir Már að hann hafi verið að vekja athygli á því að vextir í okkar helstu viðskiptalöndum – Bandaríkjunum og evrusvæðinu – hafa um langt skeið verið í sögulegu lágmarki. „Þetta hefur verið talið nauðsynlegt til að örva eftirspurn af því að öfugt við okkur á Íslandi þá hafa þessi ríki búið við lítinn hagvöxt og mikinn slaka. Menn hafa hins vegar haft vaxandi áhyggjur af þeim neikvæðu hliðarverkunum sem þessir lágu vextir geta haft á fjármálastöðugleika. Heimilin skuldsetji sig of mikið samhliða hækkandi fasteignaverði og þegar vextir fara að hækka á ný, sem mun að lokum gerast, þá geti þau mörg hver lent í greiðsluerfiðleikum. Við sjáum að þetta er að gerast í löndum eins og Svíþjóð þar sem húsnæðisverð hefur þar til nýlega hækkað mikið og heimilin eru verulega skuldsett.“En þar hefur seðlabankinn samt ekki verið að bregðast við með hærri vöxtum en ella eins og peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur gert? „Seðlabankinn þar í landi telur, réttilega að mínu viti, að það yrði erfitt fyrir að Svíþjóð að vera með mikinn vaxtamun gagnvart evrusvæðinu. Það myndi strax brjótast út í mikilli hækkun gengisins. Öfugt við okkur þá hefur vandamál þeirra einkum verið hættan á því að verðbólguvæntingar myndu festast umtalsvert undir markmiði seðlabankans. Á fundum sem ég sæki með seðlabankastjórum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og Evrópska kerfisáhætturáðinu stendur upp úr að allir hafa miklar áhyggjur af þessum lágu vöxtum og þeirri áhættu sem þeir skapa fyrir fjármálastöðugleika. Ef menn komast þess vegna undan því að vera með svona óheyrilega lága vexti þá er það bara blessun. Og við búum sem betur fer við þessa blessun,“ segir Már.Þrátt fyrir að vextir séu talsvert hærri hér á landi en í helstu viðskiptalöndum okkar þá eru þeir engu að síður, útskýrir seðlabankastjóri, um þessar mundir lítillega lægri en sögulegt meðaltal seðlabankavaxta í Bandaríkjunum og Bretlandi frá því á 19. öld og til dagsins í dag. „Auðvitað er það þannig að vextir á Íslandi eru í sögulegu lágmarki þegar litið er til langtímavaxta og vaxta á verðtryggðum fasteignalánum. Það hafa áður verið lægri skammtímavextir en ekki þegar við erum á þessu stigi hagsveiflunnar. Síðast þegar við vorum með slíkt vaxtastig, um miðjan tíunda áratuginn, var slaki í hagkerfinu. Það eru því að verða hérna feikilega miklar breytingar.“ Már segir að þarna spili meðal annars inn í sú kerfisbreyting sem hefur orðið á grunngerð hagkerfisins, ekki síst með vexti ferðaþjónustunnar, og eins þær umbætur sem gerðar hafa verið á peningastefnunni. „Sjálfstæði peningastefnunnar jókst eftir að peningastefnunefndin var sett á fót árið 2009 og hún er núna mótuð eftir miklu ítarlegra ferli en áður. Smám saman hefur það síast inn í kollinn á fólki að nefndin stefnir að 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði og hún meinar það! Þetta hefur hjálpað til, vissulega ásamt fjármagnshöftunum, og eins sú staðreynd að hið sveigjanlega gengi krónunnar virkar betur og er núna í meiri mæli sveiflujafnandi.“Með þessari kerfisbreytingu á hagkerfinu, sem endurspeglast í miklum viðskiptaafgangi og umskiptum á erlendri stöðu þjóðarbúsins, telurðu þá raunhæft að Ísland verði smám saman lágvaxtaland? „Hvað er lágvaxtaland er alltaf skilgreiningaratriði og sumum finnst það ekkert vera lágvaxtarland nema vextir séu núll prósent. En já, mér finnst það algjörlega raunhæft að langtímaraunvextir haldi áfram að lækka. Hvort sú verður reyndin fer hins vegar eftir því hvað gerist næst. Ef viðskiptaafgangurinn helst sambærilegur, sem mun þýða að erlend eignastaða þjóðarbúsins batnar enn frekar, og sparnaðarhneigð heimila og fyrirtækja heldur áfram í sama mæli þá mun það toga niður raunvextina. Hversu mikið og hratt það gerist á eftir að koma í ljós.“"Fjárfestar og bankamenn, ekki hvað síst í fjárfestingabankastarfsemi, vilja auðvitað yfirleitt að bankarnir séu með lægri eiginfjárhlutföll,“ segir Már.Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur umbylt íslenska hagkerfinu og hefur verið einn helsti drifkraftur hagvaxtar á undanförnum árum. Ljóst er að allar spár um hagvaxtarhorfur á komandi árum ráðast mjög af gengi þeirrar atvinnugreinar sem skapar nú orðið um helmingi meiri gjaldeyri á hverju ári en áliðnaðurinn og sjávarútvegur samanlagt.„Ekki einhver gullkista“Á það hefur verið bent að flugfélögin Icelandair og WOW air, sem standa undir meira en 80 prósentum af framboði á flugi til og frá landinu, séu þess vegna kannski í svipaðri stöðu og bankarnir fyrir 2008 – of kerfislega mikilvæg til að mega falla. Gæti mögulegt gjaldþrot annars þessara félaga skapað mikla áhættu fyrir fjármálastöðugleika og er þetta eitthvað sem Seðlabankinn hefur sérstaklega skoðað? „Það fer mikið eftir ástæðu gjaldþrotsins og hvað tekur síðan við. Munurinn á banka og flugfélagi er að það er hægt að gera áhlaup á banka. Þegar flugfélag fer í greiðsluþrot eru afleiðingarnar að þeir sem hafa sett fé sitt í reksturinn tapa því og félagið er í kjölfarið annaðhvort endurskipulagt eða tekið yfir af öðru flugfélagi. Það sem skiptir máli varðandi stöðuna í ferðaþjónustu er framboðið á flugi til og frá landinu og þá skiptir ekki höfuðmáli hvort það er borið uppi af íslensku eða erlendu flugfélagi. Ef það er þannig að gjaldþrot flugfélags verður vegna þess að það er að draga úr eftirspurn eftir ferðum til Íslands þá mun það jafnframt þýða í senn minni vöxt í ferðaþjónustu og minni hagvöxt. Samkvæmt áfallsprófi sem við höfum gert og gerir ráð fyrir að ferðaþjónustan yrði fyrir miklu höggi, þar sem allur vöxtur síðustu þriggja ára myndi ganga til baka, þá er augljóst mál að hagvöxtur minnkaði mikið, gengið myndi gefa eftir og verðbólgan aukast. En jafnvel við svona mikið áfall þá er eigið fé bankanna nægjanlegt til að standa það af sér og það yrði ekkert kerfishrun heldur aðlögun að nýju jafnvægi.“Nú hefur einmitt mikið verið rætt um bankakerfið að undanförnu, meðal annars í aðdraganda nýafstaðinna kosninga, og ný ríkisstjórn hyggst vinna svonefnda hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi. Telur þú einhverju ólokið í endurskipulagningu fjármálakerfisins? „Ég held að það geti verið ákaflega gagnlegt að fara yfir hvar við stöndum varðandi fjármálakerfið í dag, hvernig við viljum hafa það til frambúðar og hvernig við getum komist þangað. Í mínum huga er þetta eitthvað sem er mikilvægara en hvort vextir séu 25 punktum lægri eða hærri. Þannig að ég fagna því í sjálfu sér ef til stendur að fara í slíka vinnu. Það verður engu að síður að hafa í huga við þá endurskoðun að það má þá ekki ræða viðfangsefnið eins og fjármálakerfið í dag sé hið sama og fyrir fjármálakreppuna.“Finnst þér oft skorta skilning á þessu í umræðunni? „Já, mér þykir það. Eiginfjárstaða bankanna er mjög góð, það er engin stór áhætta í efnahagsreikningum og það er búið að hreinsa upp stóran hluta vandræðalána. Þá hefur eftirlit og regluverk um starfsemi bankanna verið stórbætt, meðal annars með tilkomu fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar, og það er jafnframt verið að innleiða fjölmörg þjóðhagsvarúðartæki. Áhættan í fjármálakerfinu í dag er því miklu minni en nokkru sinni áður.“Að mati Más eru áskoranirnar varðandi fjármálakerfið að koma úr allt annarri átt en var fyrir bankahrun. „Í fyrsta lagi gætu breytingar á samkeppnisumhverfinu, með uppgangi fjártæknifyrirtækja (e. fintech), grafið undan viðskiptalíkani bankanna enda þótt í þeim felist einnig tækifæri. Þá er ljóst að kostnaður við stafrænan rekstur og tölvukerfi íslensku bankanna er mjög hár og mun fara vaxandi. Þar mætti skoða leiðir til hagræðingar með því að sameina ýmsa innviði. Í þriðja lagi stafar fjármálakerfinu vaxandi ógn af netárásum og það getur aukið kostnað þess enn frekar að reyna að verjast þeim. Að lokum er verið að innleiða nýtt regluverk frá Evrópusambandinu sem mun stórauka kvaðir á bankana hvað varðar meðal annars persónuvernd og gagnaöryggi.“ Hann segir að það sé því mikill misskilningur, eins og stundum sé af látið, að „fjármálakerfið sé einhver gullkista sem geti leyst hvers manns vanda. Það er auðvitað ekki þannig enda þótt það kunni að vera eitthvert svigrúm til að lækka eiginfjárhlutföll bankanna. Ég held að það sé hins vegar minna en margur heldur.“Svigrúmið minna en af er látiðNú vilja nánast allir stjórnamálaflokkar lækka verulega eigið fé bankana, með sérstökum arðgreiðslum til ríkissjóðs. Er þar verið að tala um hærri fjárhæðir heldur en er raunhæft að þínu mati? „Já, ég held það. Það er ýmis áhætta, bæði fyrirséð og ófyrirséð, sem getur komið upp og bankakerfi okkar þarf að vera með eiginfjárhlutföll sem geta staðið af sér stór högg. Við eigum í þeim efnum ekki alltaf að vera að bera okkur saman við evrópska bankakerfið sem hefur verið undirfjármagnað um langt skeið. Fjárfestar og bankamenn, ekki hvað síst í fjárfestingabankastarfsemi, vilja auðvitað yfirleitt að bankarnir séu með lægri eiginfjárhlutföll þannig að þeir geti sýnt hærri ávöxtun á eigið fé en ella enda þótt hagnaðurinn sé að sama skapi ekkert mikill borið saman við stærð efnahagsreikningsins. Þá geta þeir sagt: sjáið hvað við erum miklir töframenn og farið fram á háa bónusa en afleiðingin er sú að bankarnir eru að lokum holaðir að innan. Það er vissulega eitthvert svigrúm í bönkunum í dag til að lækka eigið fé þeirra en það er ekki eins mikið og stundum er af látið.“Það hafa sumir haft áhyggjur af því að slík skammtímasjónarmið muni ráða för eftir að vogunarsjóðir og Goldman Sachs eignuðust 30 prósenta hlut í Arion banka og hafa talað fyrir því að stjórnvöld reyni að nýta sér mögulegan forkaupsrétt að bankanum. Telurðu heppilegt að ríkið eignist þriðja bankann? „Það er ekki eitthvað sem ég er að hvetja til. Hvað varðar söluferli Arion banka og mögulega aðkomu stjórnvalda þá þurfum við auðvitað að passa upp á að allt það ferli verði í samræmi við þá samninga sem lagt var upp með milli Kaupþings og íslenska ríkisins í tengslum við nauðasamninga slitabúsins. Þá þarf þetta að gerast með þeim hætti að traust á bankakerfinu sé varðveitt, líka út á við. Auðvitað er það ekki æskileg staða, nema í skamman tíma, að ríkið sé með alla áhættuna af bankakerfinu hjá sér beint. Við bankahrunið 2008 sögðum við alltaf – og það var okkar helsta vörn – að þetta væru einkabankar sem ríkið bæri ekki ábyrgð á og þar af leiðandi væri ekki hægt að ætlast til þess að íslenska ríkið myndi stíga þar inn í og ábyrgjast efnahagsreikning þeirra. Það hefði sett ríkið á hausinn.“Kallaði á stærri gjaldeyrisforða Í júní 2016 voru sett á innflæðishöft, eða svokallað fjárstreymistæki, í því skyni að stemma stigu við ört vaxandi innflæði fjármagns sem verið hafði mánuðina á undan. Erlendir aðilar sem ætla að fjárfesta í skuldabréfum hér á landi þurfa þannig að binda 40 prósent af fjárfestingunni á vaxtalausum reikningum í eitt ár. Aðspurður segir Már að hann telji að fjárstreymistækið hafi skilað þeim árangri sem lagt var upp með. „Markmiðið með því var að draga úr hvatanum til vaxtamunarviðskipta á meðan vaxtamunurinn væri svona mikill. Áætlunin um losun hafta sem var kynnt sumarið 2015 þótti trúverðug og lánshæfiseinkunn ríkisins hækkaði. Ísland varð áhugaverðari fjárfestingakostur á sama tíma og vaxtamunur við útlönd var enn mikill, og í kjölfarið kom mikið fjármagnsinnstreymi sem truflaði verulega virkni peningastefnunnar í gegnum vaxtafarveginn. Það gjörbreyttist eftir að við innleiddum fjárstreymistækið og vextir á skuldabréfamarkaði hafa síðan fylgt vaxtabreytingum Seðlabankans betur en áður.“En nú hefur vaxtamunurinn við útlönd verið að minnka, verðbólguhorfur batnað og útlit er fyrir minni hagvöxt. Heldurðu við þessar aðstæður að við munum sjá stóraukið fjármagnsinnflæði í ríkisskuldabréf ef slakað yrði á bindiskyldunni? „Það er alveg hugsanlegt. Af því að vaxtamunurinn er þrátt fyrir allt enn verulegur. Og af hverju ættum við að gera það þegar ávinningur okkar af slíku fjármagnsinnstreymi er um þessar mundir líklega neikvæður?“Hvernig færðu það út? „Af því að eftirspurn ríkissjóðs eftir erlendu lánsfé er mjög lítil í sögulegu samhengi og hann þarf því í reynd ekki á þessu fjármagni að halda. Væri sérstaka bindiskyldan ekki til staðar þyrfti Seðlabankinn væntanlega að halda úti enn stærri gjaldeyrisforða en ella til að draga úr áhættu tengdri vaxtamunarinnflæði og mögulegu snöggu útflæði. Þótt erlendir fjárfestar séu að kaupa löng skuldabréf þá er eftir sem áður um að ræða vel seljanleg verðbréf sem þeir geta alltaf selt á hverjum tíma, farið með söluandvirðið úr landi og þannig gengið á forða Seðlabankans. Það fylgir því töluverður kostnaður að viðhalda stórum forða enda er ávöxtun hans á alþjóðlegum mörkuðum óvenju lítil. Á sama tíma er vænt ávöxtun erlendra fjárfesta af kaupum á íslenskum ríkisskuldabréfum ágæt og áhættuleiðréttur vaxtamunur er meiri eftir því sem sveiflur í gengi krónunnar eru minni. Til að draga úr honum þyrfti Seðlabankinn því að leyfa auknar gengissveiflur sem um leið eykur áhættu innlendra aðila. Af þessum sökum má færa rök fyrir því að hreinn ávinningur þjóðarbúsins af slíku innflæði sé um þessar mundir neikvæður.“Sérfræðingar á fjármálamarkaði hafa hins vegar sagt innflæðishöftin á kostnað heimila og fyrirtækja þar sem þau hafi valdið því að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi ekki skilað sér að fullu til þeirra á síðustu misserum. „Það sýnir sig ekki í okkar gögnum. Við megum ekki gleyma því að Seðlabankinn horfir á þessi mál út frá almannahagsmunum. Það eru auðvitað ýmsir á fjármálamarkaði sem hafa mikla hagsmuni af því að örva þessi vaxtamunarviðskipti. Þeir ætla sér að fá þóknanatekjur af innflæðinu og eins þegar fjármagnið leitar aftur úr landi. Það er fullkomlega eðlilegt og ekkert að því að þeir geri það“. Már segir það engu að síður vera markmið Seðlabankans að fjárstreymistækið sé almennt ekki virkt. „Við viljum eiga möguleika á því að geta beitt tækinu þegar sérstakar aðstæður skapast en almennt séð er best að við þurfum ekki að nota það. Við teljum hins vegar rétt um þessar mundir að draga úr beitingu þess í skrefum enda horfur á að spennan í þjóðarbúskapnum sé að minnka og slakinn í viðskiptalöndum okkar að minnka. Vaxtamunur við útlönd ætti því að óbreyttu að minnka á næstu misserum og þannig skapast forsendur til að lækka bindiskylduna. Og við munum gera það.“"Þá geta þeir sagt: sjáið hvað við erum miklir töframenn og farið fram á háa bónusa en afleiðingin er sú að bankarnir eru að lokum holaðir að innan," segir seðlabankastjóri.vísir/stefánEkki „nægjanlega mikla“ yfirsýn Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að styrkja þurfi löggjöf og regluverk um fjármálakerfið og eins að tryggja betur sjálfstæði eftirlitsstofnana. Ein leið í þeim efnum, sem AGS hefur talað fyrir, er að sameina allt eftirlit með bankakerfinu undir hatti Seðlabankans. Þegar Már er spurður út í þær tillögur útskýrir hann að samkvæmt þeim yrði FME áfram til sem stofnun en það sem lýtur að varúðar- og eindareftirliti með bönkunum yrði tekið úr stofnuninni og flutt yfir til Seðlabankans. „Það má ekki gleyma því að í dag er staðan þannig, öfugt við það sem er í flestum öðrum löndum sem við berum okkur saman við, að reglusetningarvald hvað varðar lausa- og eiginfjárkröfur fjármálastofnana er sitt í hvorri stofnuninni. Það er ekki víst að þetta sé besta fyrirkomulagið. Reynslan sýnir að seðlabankar, sem lánveitendur til þrautavara og lausafjárfyrirgreiðendur, verða að hafa mjög glöggar upplýsingar um hver staða bankanna er þannig að þeir séu ekki að lána til þeirra sem eru ekki gjaldfærir. Þeir þurfa á hverjum tíma að hafa góðar upplýsingar um veðin sem bankarnir geta boðið fram þannig að ekki sé verið á úrslitastundu að taka ónýt veð fyrir neyðarlánum.“Er bankinn með þá yfirsýn í dag? „Kannski ekki nægjanlega mikla. Ég held að það yrði betur tryggt með nánara samstarfi milli Seðlabankans og FME. En þá eru ýmsir á þeirri skoðun, meðal annars vinir okkar í FME, að það geti verið óhagkvæmt fyrir jafn lítið land og Ísland að rjúfa fjármálaeftirlitið svona í sundur eins og felst í tillögu AGS. Þá koma auðvitað aðrar leiðir líka til álita.“Viðtalið birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.
Efnahagsmál Mest lesið Biden stöðvar japanska yfirtöku á US Steel Viðskipti erlent Blöskrar 14 prósent verðhækkun tryggingarfélags Viðskipti innlent Sorpa undirbýr sig fyrir þjónustufall Neytendur Strætómiðinn dýrari Neytendur Mannauðsmál: „Enn of mikil tilhneiging til að taka ekki á málum“ Atvinnulíf „Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“ Atvinnulíf Ummæli stjórnarmanns Eflingar um sníkjudýr „til skammar“ Viðskipti innlent Vigdís frá Play til Nettó Viðskipti innlent Næstum allir nýir bílar í Noregi rafmagnsbílar Viðskipti erlent Sjónvarpskóngur allur Viðskipti erlent Fleiri fréttir Blöskrar 14 prósent verðhækkun tryggingarfélags Ummæli stjórnarmanns Eflingar um sníkjudýr „til skammar“ Vigdís frá Play til Nettó Gjafabréf og alls konar flatbökudótarí vinsælar jólagjafir í ár Innkalla nagstangir sem hundar veikjast af Nýskráning fólksbíla dróst saman um rúm fjörutíu prósent Kaupsamningar nærri helmingi fleiri en í fyrra Verkalýðshreyfingin sé stærsta ógnin við starfsöryggi á veitingastöðum Slippurinn allur að sumri loknu „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Raforka til gagnavera snarminnkað Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise Discover hefur flug milli München og Íslands Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Hluthafarnir samþykkja samruna Marels við JBT Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Elma Sif til Stika Solutions Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Vonar að allir pakkar berist til þeirra fyrir jól Kortleggja tómar íbúðir í samstarfi við sveitarfélög Jóna Björk tekur við Garðheimum Segja son og tengdadóttur Reynis ekki koma nálægt Mannlífskaupum EastJet flýgur til Basel og Lyon Margrét áfram rektor á Bifröst Ingibjörg Þórdís til Elko Fimm mætt í Kauphöllina RÚV sker sér stærri sneið af auglýsingakökunni Ársverðbólga óbreytt á milli mánaða Sjá meira