Innlent

Kortin tryggja ekki bíla á HM

Baldur Guðmundsson skrifar
Strákarnir fagna á EM í Frakklandi sumarið 2016.
Strákarnir fagna á EM í Frakklandi sumarið 2016. Vísir/Vilhelm
„Tryggingar á bílaleigubílum gilda ekki í Rússlandi,“ segir Telma Eir Aðalsteinsdóttir, vörustjóri kortatrygginga hjá VÍS. Fjórtán prósent Íslendinga ætla, samkvæmt könnun Fréttablaðsins, að ferðast til Rússlands næsta sumar til að fylgjast með íslenska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Það eru 37 þúsund manns.

Langar vegalengdir eru á milli leikstaða í Rússlandi og víst að margir munu nýta sér lestar- og flugsamgöngur. Þeir sem hins vegar stefna á að leigja bílaleigubíl ættu að hafa varann á sér. Þótt viðskipta- og platínukort séu með kaskó- og viðbótarábyrgðartryggingu gilda þær tryggingar ekki í Rússlandi, og nokkrum öðrum löndum.

Telma segir að áhættumat tryggingafélaga á Rússlandi ráði þarna för. Hún bendir á að bílaleigurnar sjálfar selji tryggingar en hvetur fólk til að kynna sér þau mál gaumgæfilega, áður en haldið sé af stað, sérstaklega hvaða lögboðnu tryggingar gilda í Rússlandi. „Persónulega myndi ég ekki taka bílaleigubíl í Rússlandi.“

Hún tekur þó skýrt fram að þetta gildi aðeins um tryggingar vegna leigu á bílaleigubílum ferðalanga. Ferðatryggingar sem kortin veita gildi að öllu öðru leyti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×