Innlent

Tæp 5 prósent starfsmanna hafa upplifað kynferðislega áreitni af hálfu sjúklinga

Birgir Olgeirsson skrifar
Könnunin var send í tölvupósti til 1.000 starfsmanna Landspítala sem valdir voru af handahófi
Könnunin var send í tölvupósti til 1.000 starfsmanna Landspítala sem valdir voru af handahófi Vísir/Vilhelm
Einn af hverjum fimm starfsmönnum Landspítalans segjast hafa orðið fyrir niðurlægjandi framkomu, hótunum eða ofbeldi af hálfu sjúklings á síðustu 12 mánuðum. Þrettán prósent hafa orðið fyrir slíkri hegðun af hálfu samstarfsmanns.

Þetta er niðurstaða örkönnunar starfsmanna Landspítalans á óæskilegri hegðun sem gerð var í desember síðastliðnum. Sex prósent svarenda segjast hafa orðið fyrir einelti af hálfu samstarfsmanns og þrjú prósent af hálfu stjórnenda. Tæp 7% svarenda segjast hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni af hálfu sjúklings og 3% af hálfu samstarfsmanns.

Kynferðisleg áreitni er oftast upplifuð af hálfu sjúklinga, eða af 4,7% svarenda, en tæp 2% segjast hafa upplifað kynferðislega áreitni af hálfu samstarfsmanns á síðustu 12 mánuðum.

Í könnuninni var einnig spurt um starfsánægju og mælist hún nú 4,1 sem bendir til jákvæðrar þróunar.

Loks var spurt um inntak samskiptasáttmála og var mjög áberandi að fólk kallar eftir samskiptum sem einkennast af virðingu.

Könnunin var send í tölvupósti til 1.000 starfsmanna Landspítala sem valdir voru af handahófi. Spurt var um upplifun fólks af tiltekinni hegðun samstarfsmanna og sjúklinga, ásamt spurningu um starfsánægju og opnum spurningum um samskiptasáttmála.

Í tilkynningu frá Landspítalanum  er vitnað í pistil Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans, þar sem hann sagði að vinnustaðir þurfi að uppræta hegðun sem þessa úr sínu umhverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×