Lífið

Lét grímuna falla og fór í meðferð: „Ég var bara önnur manneskja“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sara hefur lifað áfengislausum lífsstíl í 14 mánuði og hefur aldrei liðið betur á líkama og sál.
Sara hefur lifað áfengislausum lífsstíl í 14 mánuði og hefur aldrei liðið betur á líkama og sál. Vísir/Stefán
Sara Linneth var tískubloggari og vinsæl á samfélagsmiðlum þar sem fólk sá myndir frá hennar lífi. Hún tók þá ákvörðun í lok ársins 2016 að taka niður grímuna og leita sér aðstoðar. Í dag hefur Sara lifað allsgáðum lífsstíl í 14 mánuði og hefur aldrei liðið betur á líkama og sál. Sara tjáir sig mjög opinskátt um sjúkdóminn alkóhólisma og segir að afneitun, stjórnleysi og vanlíðan hafi einkennt hennar líf áður en hún fór í meðferð.

„Ég var komin með leið á því hvernig mér leið, mér leið svo ótrúlega illa. Ég var alltaf að reyna að finna hvað væri að mér. Ég var búin að fara til sálfræðings og geðlæknis en ekkert virkaði. Ég var bara komin í andlegt þrot,“ segir Sara en hún fór inn á Vog í nóvember árið 2016.

Vissi ekki að hún væri alkóhólisti

„Mér þótti gaman að fá mér í glas. Mamma og fleiri voru búin að segja við mig að ég ætti að gera eitthvað eins og að fara í meðferð, það varð alltaf svo mikil persónuleg breyting á mér og það fór mér ekki vel að vera í glasi. Einn morguninn vaknaði ég og var algjörlega búin. Vinkona mín hringdi þá fyrir mig á Vog því ég var tilbúin að gera hvað sem er. Frá fyrsta sopa fannst mér gott að fá mér í glas, síðan fór líf mitt að snúast um að komast í breytt ástand án þess að ég gerði mér grein fyrir því. Fjöskyldan mín var oft búin að nefna við mig að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum eins og að hætta að drekka. Það varð svo mikil persónubreyting á mér og öll mín siðferðislegu gildi hurfu þegar ég var undir áhrifum, ég hafði enga stjórn og það tók mig góðan tíma að átta mig loksins á því, ég var bara svo blind á sjálfa mig og ég sé það í rauninni ekki fyrr en ég kem út af vík og er búin að vera edrú í smá tíma.“

Sara segir að það hafi verið á fyrirlestri á Vogi sem hún áttaði sig á því að hún væri alkóhólisti.

„Ég horfði á glærusýninguna og sá að þetta var það sem var að mér, að ég væri með sjúkdóminn alkóhólisma.  Það var ákveðinn léttir því þetta var búið að vera svo langur tími af lífi mínu sem ég skildi ekki hvað væri að mér, síðan fékk ég líka greiningu frá lækni.

Eftir tíu daga í afeitrun á Vogi fór Sara í kvennameðferð á Vík á Kjalarnesi þar sem hún var í fjórar vikur í meðferð. Áður en Sara fór í meðferð vissi hún lítið um alkóhólisma og áfengismeðferð.

„Ég vissi ekki að Vogur væri sjúkrahús, ég hafði ekki hugmynd um það. Þarna komst ég að því að alkóhólismi væri sjúkdómur og að þetta væri eitthvað meira en bara að hætta að drekka, að þetta væri miklu stærra. Ég hafði fordóma gagnvart þessu áður og gerði mér ekki grein fyrir því að ungt fólk gæti verið með þennan sjúkdóm. En ég hef lært það að þessi sjúkdómur spyr ekki um aldur og fyrri störf, ég er ekki minni alkóhólisti heldur en einhver annar, fólk er bara mis langt leitt þegar það leitar sér hjálpar, þar að segja ef fólk nær að leita sér hjálpar.“ 

Sara segir að fjölskylda sín hafi staðið með sér í gegnum súrt og sætt.Aðsent/Sara Linneth
Eitthvað fallegt við þetta

Sara segir að þegar hún fór inn á Vog hafi hún verið alveg tóm.  „Þetta var ekki auðvelt, maður er frá öllum og ekki með síma. Bara að vinna í sjálfum sér og maður grefur svo djúpt. Það var erfitt en á sama tíma mjög gott.“ Hún er ánægð með sinn tíma á Vogi og á Vík og segir að þar séu allir að kljást við það sama.

„En er það sem er svo fallegt við þetta, sama úr hvaða umhverfi og hvaða fíkn eintaklingurinn er að kljást við þá tengir þú við hana. Það eru engir fordómar þarna inni. Þegar ég kom þá tóku allir mjög vel á móti mér.“

Sara eignaðist vinkonur í meðferð sem hún heldur enn sambandi við. Þær hafa þó ekki allar náð að halda sér edrú eins og Sara.

„Svona er bara þessi sjúkdómur.“

Var búin að týna sjálfri sér

Hún segir að hennar nánustu sýni henni mikinn skilning. Eftir meðferðina byrjaði hún að taka þátt í félagslífinu aftur í mjög smáum skrefum og var ekkert að flýta sér. Ef hún treysti sér ekki til að fara eitthvert þá einfaldlega sleppti hún því.

„Smátt og smátt treystir maður sér til að fara í aðstæður. Sara segir að það vanti enn frekari vitundarvakningu um þennan sjúkdóm og hvernig hann er.

„Ég fæ alveg spurningar eins og „Getur þú samt ekki fengið þér einn bjór?“ og þess háttar. Þetta er bara fáfræði, ég meina ég vissi ekkert um þetta áður en ég fór út í þetta svo ég er alls ekki að dæma fólk fyrir það.“

Í meðferðinni hætti Sara ekki bara að drekka heldur breytti hún sínum lífsviðhorfum og hugsaði lífið upp á nýtt.

„Ég áttaði mig á því hvað ég var búin að týna sjálfri mér. Ég var komin langt frá því sem ég var og vildi vera. Þegar ég horfi til baka sé ég að munstrið sem ég var komin í var ekkert líf, mér leið ótrúlega illa. Sjúkdómurinn er þannig að þér líður illa þegar þú ert edrú og svo fer þig að hlakka til, það fer að birta yfir þegar þú veist að þú ert að fara að fá þér.“

Sara segir að hún hafi upplifað mikið stjórnleysi og minnisleysi þegar hún drakk áfengi og segir að þegar hún var drukkin hafi hún ekki fylgt eigin gildum í lífinu.

„Ég var bara önnur manneskja.“

Sara er þakklát fyrir vinkonur sínar.Aðsent/Sara Linneth
Upplifði mikla skömm

Sara ráðleggur þeim sem eru að upplifa svipaðar tilfinningar að leita sér aðstoðar, hitta ráðgjafa hjá SÁÁ eða ræða við einhvern sem hefur reynslu af svona málum í stað þess að einangra sig. Hún er mjög þakklát fyrir að hafa leitað sér hjálpar við sínum vanda.

„Ég áttaði mig samt ekki á því hvað ég var búin að brjóta mikið á sjálfri mér, ég sá það ekki fyrr en eftir á. Þetta var ótrúlega erfitt en þegar ég horfi til baka þá hefði ég ekki viljað breyta neinu, ég er hamingjusamur alkóhólisti því ef ég hefði ekki farið í gegnum þetta þá væri ég ekki á staðnum sem ég er á í dag. Ég er í tengslum við sjálfa mig því ég fór í gegnum þetta ferli.“

Sara segir að veikindunum fylgi oft mikil skömm og upplifði hún þær tilfinningar sjálf.

„Þegar maður lærir að þetta er sjúkdómur þá er það léttir, þó að hann sé krónískur. Þetta fer bara allt eftir því hvernig þú horfir á það, ætlar þú að gera það sem þér er sagt og ráðlagt af faglærðum læknum og ráðgjöfum sem vita hvað virkar, eða ætlar þú að gera öfugt við það og fara þínar eigin leiðir, sem hafa allavega hingað til ekki virkað.“

Ekki hægt að verða edrú fyrir aðra

Í þessu ferli hefur Sara fundið styrk sem hún vissi ekki einu sinni að hún byggi yfir. Henni finnst gott að ræða þetta núna og vonast til þess að saga sín geti hugsanlega hjálpað öðrum sem er í svipaðri stöðu og hún var árið 2016.

„Þetta hefur ekki verið auðvelt, ég var búin að vera í þessu munstri síðan í 10. bekk svo þetta voru ný kaflaskil í mínu lífi.“

Sara segir að líf sitt sé algjörlega gjörbreytt í dag og er hluti af því að hún er byrjuð að taka ábyrgð á lífi sínu og hætt að kenna öðrum um það sem fer úrskeiðis.

„Ég er hætt að hugsa bara um rassgatið á sjálfri mér.“

Henni finnst skrítið að horfa til baka á þá manneskju sem hún var þegar hún drakk áfengi.

„Mér finnst ég bara vera að horfa á aðra manneskju þegar ég horfi til baka. Ég sá ekki hvað ástandið var slæmt. Ég var bara í afneitun. Málið með þennan sjúkdóm er að maður getur ekki orðið edrú fyrir einhvern annan. Þó svo að fjölskyldan mín og vinir voru búin að reyna að benda mér á að þetta væri vandamál í einhvern tíma, þá gerðist ekkert fyrr en ég fór sjálf að átta mig á því.“

Sara segir að margir séu að ganga í gegnum það sama og hún en skammast sín fyrir að ræða það.Aðsent/Sara Linneth
Var hrædd við sögusagnir

Sara bloggaði áður um tísku, förðun og fleira og var með þúsundir fylgjenda á Instagram. Hún var það sem telst að vera áhrifavaldur að því leiti að hún fékk gjafir og greiðslur frá fyrirtækjum fyrir að nota vörur frá þeim eða sýna þær. Áður en Sara fór á Vog sagði hún frá því á samfélagsmiðlum.

„Ég gerði það örugglega bara út af hræðslu. Ég vildi segja eitthvað í stað þess að þetta færi að fréttast. Ég vildi ekki að það færu af stað einhverjar sögusagnir, ég vildi bara að þetta væri þarna og þá gæti fólk bara lesið það.“

Eftir afeitrun á Vogi fór Sara í dagleyfi heim i einn dag áður en hún fór í sína mánaðarmeðferð á Vík. Þá skrifaði hún aðra persónulega færslu um sín veikindi. 

„Þarna er ég búin að átta mig á því að ég er alkóhólisti, að þetta er sjúkdómur og að þetta er algengt og þetta er ömurlegt ef þú ert virkur.“

Þegar Sara hafði verið edrú í eitt ár sagði hún líka frá því á samfélagsmiðlum. „Þetta er svo stór sigur og ég vildi sýna að það væri hægt að öðlast betra líf. Ég hélt að lífið mitt væri búið þegar ég labbaði inn á vog, ég hélt að það væri ekkert meira en þessi litli kassi sem ég var búin að vera í. Svo er þetta bara miklu betra.“

Hún segir að það hafi verið erfitt að vera edrú í byrjun en hún hafi tekið bara einn dag í einu.

Falskur heimur samfélagsmiðla

Sara hefur ekki áhuga á að gera það sama og fyrir meðferð og hefur breytt mikið sinni forgangsröðun í lífinu. Hún er enn að farða og les blogg hjá öðrum en er sjálf hætt að blogga og mætir á mun færri viðburði tengda lífsstílsbloggurum og áhrifavöldum.

„Ég átta mig á því eftir að ég varð edrú að áhugasviðið mitt liggur ekki þarna lengur. Þetta hentaði mér ekki og ekki það sem ég leitast eftir. Það sem skiptir máli þarna skiptir mig ekki lengur máli, þetta er ekki það sem ég vil standa fyrir í dag.“ Nefnir hún sem dæmi útlitsdýrkun og endalausa þörf fyrir að eignast nýja hluti.

„Ég áttaði mig á því að veraldlegir hlutir hjálpa ekki lífinu mans og láta manni ekki líða betur, nema kannski í nokkrar sekúndur. En ég er alls ekki að dæma þá sem kjósa það að lifa þessu lífi, bara þetta er ekki fyrir mig“

Sara tók niður grímuna þegar hún leitaði sér hjálpar og byrjaði að ræða vanlíðan sína meira við sína nánustu og á samfélagsmiðlum.

„Þessi gríma sko, ég þarf alveg að passa mig ennþá.“

Sara með kærastanum sínum.Aðsent/Sara Linneth
Er ótrúlega þakklát

„Ég ákvað að setja mína andlegu líðan í fyrsta sæti þegar ég kom úr meðferð. Það er alveg fáránlegt hvað allt verður einhvern vegin miklu betra, líka fólkið í kringum mann. Ég er búin að læra inn á sjálfa mig. Hvernig maður lítur á hlutina, vandamál eru ekki lengur vandamál og maður reynir að hugsa í lausnum.“

Í dag er þakklæti stór hluti af lífi Söru og leggur hún áherslu á það á hverjum degi, hún segist virkilega þakklát fyrir líf sitt í dag. Sara er sérstaklega þakklát fyrir sína nánustu sem hafa staðið með henni í gegnum súrt og sætt.

„Ég passa mig að halda í þakklætið því að það er yfirsterkara en allt einhvern vegin.“

Sara segir að það hafi opnað augu sín að fara á Vog og sjá hversu margir þar voru í vondri stöðu og höfðu ekki stuðning og yndislegt heimili til að fara á eftir meðferðina. Best við þennan breytta lífsstíl finnst Söru að hafa fengið sjálfa sig til baka. „Og fjölskylduna mína líka, þau voru byrjuð að fjarlægjast mig.“

Sara með móður sinni á góðri stundu.Aðsent/Sara Linneth
Langar að hjálpa öðrum

Sara segist vera á ótrúlega góðum stað í dag og er sífellt að vinna í sjálfri sér. Hún hugsar betur um sjálfa sig og setti sér það sem markmið um áramótin að hreyfa sig meira. Hún hefur áður átt í óheilbrigðu sambandi við mat og hreyfingu en ætlar núna að æfa til að líða vel, en ekki til að verða mjó sem var hennar ástæða fyrir hreyfingu áður fyrr.

„Ég er í fyrsta skipti á ævinni sátt í eigin skinni.“

Hún segist hætt að vera í sífelldri vörn og getur nú betur tekið á móti gagnrýni og ábendingum frá fólkinu í kringum sig. Hún ræðir líka tilfinningar sínar frekar en að burðast með þær ein.

„Ég er ekki fullkomin og er ekki að reyna að vera það.“

Hún er núna í námi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og stefnir á að starfa með ungmennum í framtíðinni. „Mig langar að vinna í svona málum og láta gott af mér leiða. Gefa til baka.“

Sara horfir björtum augum á framtíðina.Vísir
Ert þú í vanda?

Sjálfspróf geta sterka vísbendingu um hvort þú eigir við vanda að stríða vegna neyslu áfengis- og vímuefna. Þú getur skoðað slíka lista með því að smella hér. Sjálfspróf getur veitt einstaklingum vísbendingar um eigin stöðu en niðurstöður jafngilda hins vegar ekki sjúkdómsgreiningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×