Erlent

Reiknað með að Trump haldi í kjarnorkusamninginn

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump hefur margoft hótað því að segja upp samningnum.
Donald Trump hefur margoft hótað því að segja upp samningnum. Vísir/AFP
Reiknað er með að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni í dag tilkynna um að Bandaríkjastjórn muni halda áfram að framfylgja ákvæðum kjarnorkusamningsins við Íran.

Frá þessu greinir blaðamaður Bloomberg sem hefur fylgst með gangi mála. Hann segir að ákvörðunin hafi verið tekin í gærkvöldi og að tilkynnt verði um ákvörðunina í dag.

Trump hefur margoft hótað því að segja upp samningnum, en hann hefur frest til dagsins í dag til að taka ákvörðun um hvort að áfram eigi að aflétta viðskiptaþvingunum gegn Íran. Verði ekki framhald á því er framtíð samningsins í hættu.

Samningurinn setur takmarkanir á kjarnorkuáætlun Írans í skiptum fyrir að viðskiptaþvingunum gegn ríkinu sé aflétt.

Samkvæmt bandarískum lögum verður forsetinn að fullvissa þingið á níutíu daga fresti um að Íran standi við ákvæði samningsins til að hann sé áfram í gildi.

Utanríkisráðherrar Írans og annarra ríkja sem aðild eiga að samningnum, að þeim bandaríska frátöldum, funduðu í gær og sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir ánægju með reynsluna af samningnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×