Ungmennasamband Íslands býður félögum sínum upp á það að fá sakavottorð fyrir þjálfara þeirra, félögunum að kostnaðarlausu en UMFÍ vekur athygli á þessu í frétt á heimasíðu sinni.
Sambandsaðilum UMFÍ er óheimilt að ráða einstakling til starfa sem hefur hlotið refsidóma vegna ofbeldisbrota, ávana- og fíkniefnabrota eða vegna kynferðisbrota.
Stjarnan í Garðabæ er eitt þeirra félaga sem hefur nýtt sér þessa þjónustu sambandsaðila UMFÍ en Garðabær gerir þær kröfur að leiðbeinendur, þjálfarar og allir aðrir, sem starfa með æskufólki á vegum félagsins, uppfylli skilyrði æskulýðslaga um hreint sakavottorð.
„Stjórn Stjörnunnar ákvað árið 2014 að afla sakavottorða fyrir alla þjálfara félagsins. En við erum með um 400 þjálfara. Það væri erfitt fyrir okkur að fá sakavottorð þeirra allra sjálf, bæði tæki það tíma og yrði mjög dýrt. Það léttir mikið undir hjá okkur að nýta möguleikann á því að fá sakavottorð fyrir þjálfara og starfsfólk í gegnum þjónustumiðstöð UMFÍ,“ segir Ása Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Stjörnunnar, í viðtali við Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
Félagið fer kerfisbundið í verkið og hefur sótt um sakavottorð fyrir hverja deild Stjörnunnar í einu. Nokkur tími mun því líða þar til búið verður að fara í gegnum félagið allt.
Viðtalið við Ásu Ingu og umfjöllunin um Stjörnuna eru í 4. tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ sem má nálgast hér.
Sport