Erlent

Blaðakonum gert að standa á bakvið karla

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við Grátmúrinn í gær.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við Grátmúrinn í gær. Vísir/AFP
Blaðakonur sem fylgst hafa með ferðalagi Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, um Ísrael hafa fengið sérstaka meðferð frá yfirvöldum þar. Konur voru aðskildar frá karlmönnum við Grátmúrinn i gær og voru þær settar á bakvið karlanna.

Þá var starfsmanni Ríkissjónvarps Finnlands gert að fara úr brjóstahaldara sínum við skrifstofur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, í gær. Hún neitaði og var því meinað að fjalla um fund Pence og Netanyahu.

Samkvæmt frétt Chicago Tribune er þetta ekki í fyrsta sinn sem kvenkyns blaðamanni er skipað að afklæðast af öryggisvörðum Netanyahu. Hið sama kom fyrir blaðakonu Al Jazeera árið 2011.



Grátmúrinn er undir stjórn hinna íhaldssömu samtaka Western Wall Heritage Foundation og hefur bænendum lengi verið skipt upp eftir kyni. Hið sama var gert við blaðamenn sem fylgdu Pence.

Áðurnefnd samtök sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau sögðu sama fyrirkomulag hafa verið á þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, heimsótti múrinn í fyrra. Einnig kom fram í tilkynningunni að samtökin höfnuðu öllum tilraunum til að afvegaleiða frá mikilvægi heimsóknar Pence og eiginkonu hans til Grátmúrsins.

Sjá einnig: Klipptu kvenleiðtoga út úr göngunni í París

Eins og komið hefur fram hefur þessi háttur lengi verið á við Grátmúrinn. Hins vegar hefur áður verið séð til þess að bæði karlar og konur geti fylgst með múrnum og því sem fer fram þar. Það var ekki gert í gær þar sem karlarnir virtust vera á hærri palli og fyrir framan konurnar.

Nokkrar blaðakonur birtu myndir af aðstæðum þeirra á samfélagsmiðlum í gær.

Í umfjöllun Chicago Tribune segir að aðskilnaðurinn hafi þótt umdeildur á undanförnum árum og áköll eftir þriðja rýminu, þar sem bæði konur og karlar geti beðið saman, hafi orðið sífellt háværari. Þá hafi ríkisstjórn Netanyahu ákveðið í fyrra að hlíða þeim áköllum og skipta torginu upp í þrjá hluta.

Netanyahu hafi þó hætt við það eftir mikil mótmæli frá íhaldssömum meðlimum ríkisstjórnar hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×