Skurðirnir Magnús Guðmundsson skrifar 22. janúar 2018 07:00 Það verður að virða mannkyni til afsökunar að margt af því tjóni sem við höfum unnið jörðinni var gert í ógáti. Vanþekking hefur þó langt í frá alltaf verið Íslendingum til afsökunar, en það var þó engu að síður tilfellið þegar við ræstum fram votlendi víða um land. Á árunum eftir stríð og talsvert eftir það fengu bændur greitt fyrir að þurrka upp votlendi og auðvitað fórum við Íslendingar offari. Í Speglinum á RÚV síðastliðinn fimmtudag kom fram að samanlögð lengd skurða á Íslandi er áætluð 34 þúsund kílómetrar og við höfum þurrkað upp eina 4.200 ferkílómetra af landi. Mjög stór hluti af þessu sundurskorna landi er ekki nýttur í dag. Afleiðingin er langtum skelfilegri en nokkurn hefði getað grunað en framræst votlendi stendur undir 73% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þegar jarðvegurinn þornar veldur það því að lífrænu efnin í sverðinum rotna og leysa frá sér lofttegundir, þessar bannsettu gróðurhúsalofttegundir sem eru að gera út af við jörðina, örar en nokkurn óraði fyrir. Árið 1996 var fyrst farið að huga að endurheimt votlendis á Íslandi en það snerist einkum um að endurheimta fuglalífið sem var að miklu leyti horfið vegna þess að jarðvegurinn þarf á vatninu að halda til þess að lifa. Það kom þó að því að við áttuðum okkur á hversu skaðvænleg framræsing votlendis er, en það hefur þó ekki dugað betur en svo að í dag er meira ræst fram af votlendi en er endurheimt. Þekkingarleysi á sínum tíma dugir okkur því langt í frá til afsökunar, dregur úr ábyrgð okkar eða breytir einhverju um það að okkur ber að vinda ofan af vitleysunni og bæta skaðann. Í fyrsta lagi hlýtur að þurfa að koma sú kvöð á þá sem framræsa land að þeir skili sambærilegum hektarafjölda til baka eða í það minnsta greiði kostnaðinn af slíkri endurheimt. Samkvæmt Sunnu Áskelsdóttur, verkefnisstjóra endurheimtarverkefnis Landgræðslunnar, er áætlaður kostnaður af endurheimtum hektara um 60 til 70 þúsund krónur. Sunna bendir einnig á að það sé með góðu móti hægt að endurheimta um 90 þúsund hektara en fjöldi framræstra jarða er í eigu ríkis eða sveitarfélaga eða löngu kominn í eyði. Áætlaður kostnaður, utan umsýslukostnaðar, er á bilinu 5,4 til 6,3 milljarðar króna. Vissulega er hér um mikla peninga að ræða en ef horft er til ávinningsins er þetta afar góður kostur fyrir okkur Íslendinga til þess að leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn ofhlýnun jarðar. Það er fagnaðarefni að í vikunni stendur til að stofna sjálfseignarfélag eða Votlendissjóð sem hefur það á dagskrá að endurheimta votlendi með framlögum frá fyrirtækjum og stofnunum, en þó er hætt við að meira þurfi til. Ríkið getur ekki skorast undan ábyrgðinni, því að skaðinn varð fyrir tilstilli hvatningar frá ríkinu og það er löngu tímabært að rísa undir þeirri ábyrgð. Staðreyndin er að við skuldum jörðinni, sjálfum okkur og kynslóðum framtíðarinnar að grípa til aðgerða með því að loka skurðunum, endurheimta votlendið og lífríkið í landinu og það ekki seinna en strax.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. janúar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Það verður að virða mannkyni til afsökunar að margt af því tjóni sem við höfum unnið jörðinni var gert í ógáti. Vanþekking hefur þó langt í frá alltaf verið Íslendingum til afsökunar, en það var þó engu að síður tilfellið þegar við ræstum fram votlendi víða um land. Á árunum eftir stríð og talsvert eftir það fengu bændur greitt fyrir að þurrka upp votlendi og auðvitað fórum við Íslendingar offari. Í Speglinum á RÚV síðastliðinn fimmtudag kom fram að samanlögð lengd skurða á Íslandi er áætluð 34 þúsund kílómetrar og við höfum þurrkað upp eina 4.200 ferkílómetra af landi. Mjög stór hluti af þessu sundurskorna landi er ekki nýttur í dag. Afleiðingin er langtum skelfilegri en nokkurn hefði getað grunað en framræst votlendi stendur undir 73% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þegar jarðvegurinn þornar veldur það því að lífrænu efnin í sverðinum rotna og leysa frá sér lofttegundir, þessar bannsettu gróðurhúsalofttegundir sem eru að gera út af við jörðina, örar en nokkurn óraði fyrir. Árið 1996 var fyrst farið að huga að endurheimt votlendis á Íslandi en það snerist einkum um að endurheimta fuglalífið sem var að miklu leyti horfið vegna þess að jarðvegurinn þarf á vatninu að halda til þess að lifa. Það kom þó að því að við áttuðum okkur á hversu skaðvænleg framræsing votlendis er, en það hefur þó ekki dugað betur en svo að í dag er meira ræst fram af votlendi en er endurheimt. Þekkingarleysi á sínum tíma dugir okkur því langt í frá til afsökunar, dregur úr ábyrgð okkar eða breytir einhverju um það að okkur ber að vinda ofan af vitleysunni og bæta skaðann. Í fyrsta lagi hlýtur að þurfa að koma sú kvöð á þá sem framræsa land að þeir skili sambærilegum hektarafjölda til baka eða í það minnsta greiði kostnaðinn af slíkri endurheimt. Samkvæmt Sunnu Áskelsdóttur, verkefnisstjóra endurheimtarverkefnis Landgræðslunnar, er áætlaður kostnaður af endurheimtum hektara um 60 til 70 þúsund krónur. Sunna bendir einnig á að það sé með góðu móti hægt að endurheimta um 90 þúsund hektara en fjöldi framræstra jarða er í eigu ríkis eða sveitarfélaga eða löngu kominn í eyði. Áætlaður kostnaður, utan umsýslukostnaðar, er á bilinu 5,4 til 6,3 milljarðar króna. Vissulega er hér um mikla peninga að ræða en ef horft er til ávinningsins er þetta afar góður kostur fyrir okkur Íslendinga til þess að leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn ofhlýnun jarðar. Það er fagnaðarefni að í vikunni stendur til að stofna sjálfseignarfélag eða Votlendissjóð sem hefur það á dagskrá að endurheimta votlendi með framlögum frá fyrirtækjum og stofnunum, en þó er hætt við að meira þurfi til. Ríkið getur ekki skorast undan ábyrgðinni, því að skaðinn varð fyrir tilstilli hvatningar frá ríkinu og það er löngu tímabært að rísa undir þeirri ábyrgð. Staðreyndin er að við skuldum jörðinni, sjálfum okkur og kynslóðum framtíðarinnar að grípa til aðgerða með því að loka skurðunum, endurheimta votlendið og lífríkið í landinu og það ekki seinna en strax.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. janúar.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun