Fótbolti

Lewandowski orðinn þreyttur á að vera endalaust orðaður við Real Madrid

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Robert Lewandowski skorar og skorar.
Robert Lewandowski skorar og skorar. vísir/getty
Robert Lewandowski, framherji Bayern München, er orðinn vel þreyttur á þráleitum orðrómum þess efnis að hann sé á leið til Real Madrid.

Félagaskiptagluggar mega ekki opna án þess að nánast sé fullyrt að hann verði keyptur til spænska stórliðsins sem hefur haft augastað á honum í nokkur ár.

Pólverjinn, sem verður þrítugur á árinu, hefur það gott hjá Bayern München þar sem hann er búinn að raða inn mörkunum frá því 2014 þegar að hann kom frá Dortmund.

Hann er búinn að skora 18 mörk í 20 leikjum í þýsku 1. deildinni á tímabilinu en Bæjarar eru með 18 stiga forskot. Hann skoraði 30 mörk í fyrra og árið á undan því en í heildina hefur hann skorað 95 deildarmörk í 116 leikjum fyrir Bayern.

„Ég veit alveg hver staðan er. Ég heyri sama orðróminn á hverju ári. Þessi orðrómur hefur engin áhrif á mig og ég hef ekki áhuga. Meira segi ég ekki. Ég veit ekki hvaðan þetta kemur,“ segir Lewandowski í viðtali við þýska blaðið Bild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×